Sanna Magdalena Mörtudóttir bendir á að fátækt sé ömurleg alla mánuði ársins, ekki aðeins í jólamánuðinum.
Sanna Magdalena, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins skrifar um fátækt og fjölmiðla í nýjustu Facebook-færslu sinni en hún furðar sig á mikilli umfjöllun í fjölmiðlum um fátækt í desember en mun minna aðra mánuði ársins:
„Það er alltaf gott að tala um fátækt þangað til að fátækt verður útrýmt en hvað er málið með þessa desember jólaumræðu um fátækt, sem kemur alltaf fram á þessum árstíma, sérstaklega í fjölmiðlum þar sem það er slatta umfjöllun um fjölda sem leita til hjálparsamtaka.“ Þannig hefst færsla Sönnu, sem þekkir fátækt á eigin skinni enda alin upp af einstæðri móður í Breiðholtinu. Hún segist skilja hvað það „stingur mikið“ að eiga ekki fyrir gjöfum og góðum mat á jólunum:
„Auðvitað er ömurlegt að fara í gegnum desembermánuðinn þar sem það stingur rosa mikið að geta ekki tekið þátt eins og aðrir, keypt eins og aðrir og leyft sér að kaupa góðan mat og gjafir fyrir nánustu og það kemur sérstaklega fram á þessum árstíma. Það stingur svo því það er nógu erfitt að reyna komast í gegnum venjulegan mánuð í fátækt, hvað þá jólamánuðinn.“
Að lokum spyr Sanna hvar athygli meginstraumsfjölmiðla sé alla aðra mánuði ársins.
„En hvar er þessi mánaðarlega athygli meginstraumsfjölmiðla hina mánuði ársins? Því það er líka ömurlegt að vera fátækur í janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október og nóvember. Í þessum mánuðum eru alltaf einhver afmæli, einhver boð og væntingar sem er ekki hægt að upplifa sökum fátæktar.“