Jólabókaflóðið stendur nú sem hæst á Íslandi og keppast nú söluaðilar við að selja lesþyrstum kaupendum bækur. Eins og oft áður er úrvalið ansi fjölbreytt. Hægt er að finna fjöldan allan af spennusögum, ljóðabókum og ævisögum en ein af bókunum sem standa svolítið upp úr í flóðinu er bókin Límonaði frá Díafani eftir þjóðargersemina Elísabeti Jökulsdóttur.
„Mig langaði að segja þessa merkilegu sögu um ferð barnsins til útlanda og hvernig allt breyttist, lykt og matur, ávextir, hunang. Svo eru tveir kaflar í bókinni sem ég vildi koma til skila, um andlega vakningu og lokin á bókinni þegar hún kemur aftur sem fullorðin kona.“ Þetta segir Elísabet Kristín Jökulsdóttir í samtali við Mannlíf um nýjustu bók hennar, Límonaði frá Díafani, sem JPV gefur út.
En er sagan sem Elísabet segir sönn?
Elísabet: „Aðalega sannsöguleg en skáldskapur í bland, ég man ótrúlega mikið 8 ára gömul eða ég var 8 ára þegar ég fór í ferðina.“
Hvernig hafa viðbrögðin við bókinni verið
Elísabet: „Alveg glimrandi, fólk segir að hún sé ljúf og elskuleg og hitti beint í hjartastað.“
Og hvernig er það, er ekki mikið að gera í jólatörninni?
Elísabet: „Jú það er brjálað að gera og ég orðin pínu þreytt líka út af nýranu en ég fæ beiðni um upplestur á hverjum degi, stundum tvisvar frá ólíkum hópum.“
Elísabet flutti fyrir nokkru til Hveragerðis en Mannlíf vildi vita hvernig henni litist á bæinn.
Elísabet: „Hveragerði er alveg príma, ég á fallegt heimili og góða vini hér, elska gufurnar í fjallinu og skóginn í fjallinu.“
En Elísabet er ekkert hætt að skrifa, síður en svo en hún vinnur nú að næstu bók sinni. En um hvað er hún?
Elísabet: „Ég er að skrifa nýja sögu um konu sem lokast inni í Hveragerði, mér sýnist fólk mjög spennt fyrir henni, vona hún komi út á næsta ári, annars er hún bæði erfið og skrítin.“
Hvernig þá?
Elísabet: „Hún glímir við kvíða og leiðindi og kemst ekki út úr húsinu og ekki út úr höfðinu á sér, hún fer að rannsaka fyrri innilokanir sem hún hefur glímt við alla ævi.“
Elísabet áritar bókina í Pennanum Eymundsson í Austurstræti á milli 17:00 og 18:00 í dag.