Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður er meðvitaður um alvarleika matarsóunar.
„Skilningur minn á þessu vandamáli hefur vaxið hægt yfir nokkurra ára tímabil, samhliða því hef ég tekið lítil skref til að bæta neysluvenjur mínar. Ég hef því aldrei tekið drastíska ákvörðun til að minnka matarsóun, það var bara ferli sem þróaðist náttúrulega. Í upphafi reyndi ég að sóa minna, í kjölfarið byrjaði ég að „dumpster dive-a“ reglulega og þá fyrst fór ég að hætta að taka mark á „best fyrir“ dagsetningum,“ útskýrir Björn en þess má geta að „dumpster diving“ snýst um að leita að ætum mat og öðrum verðmætum í ruslagámum á bak við verslanir. Oft er um útlitsgallaðan mat að ræða eða matvæli sem eru að nálgast síðasta söludag.
„Í upphafi reyndi ég að sóa minna, í kjölfarið byrjaði ég að „dumpster dive-a“ reglulega og þá fyrst fór ég að hætta að taka mark á „best fyrir“ dagsetningum.“
Björn, sem er vöruhönnuður, kveðst hafa fyrst byrjað að hugsa um afleiðingar matarsóunar árið 2013. „Í vöruhönnunarnámi sem ég stundaði var lögð gífurleg áhersla á umhverfis- og loftslagsmál. Þannig kynntist ég alvarleika málsins í fyrsta skipti. Matarsóun gengur í raun gegn öllu sem ég trúi á svo það var rökrétt að byrja á að breyta neysluvenjum mínum.“
Það gleður Björn að sjá að fólk er almennt farið að leiða hugann að því hvernig má draga úr matarsóun. „Ég finn fyrir gífurlegri vakningu í tengslum við öll umhverfis- og loftslagsmálum, ekki síst hvað varðar plast, kolefnislosun og matarsóun. Umræðan í samfélaginu hefur breyst hratt og eingöngu til hins betra.“
Hann hvetur fólk til að kynna sér þau neikvæðu áhrif sem matarsóun hefur í för með sér. „Mikilvægast er að líta ekki fram hjá vandamálum sem við stöndum frammi fyrir, það er mikilvægt að halda sér upplýstum þó að þetta séu oft íþyngjandi og sorglegar staðreyndir. Það er möguleiki á að knýja fram breytingar ef fólk er tilbúið að meðtaka staðreyndir og er reiðubúið að bregðast við.“
Sjá einnig: Getum ekki borðað uppáhaldsmatinn okkar á hverjum degi