Úttekt OECD árið 1993 sýndi að lyfjaverð á Íslandi væri með því hæsta í heiminum. Var það meðal annars rekið til þess að álagning smásala og heildsala var meiri en víðast hvar annars staðar. Síðan hafa verið gerðar miklar og róttækar breytingar. Ein sú veigamesta var sú að lyfsala var gefin frjáls en áður höfðu lyfsalar fengið sérleyfi frá stjórnvöldum til að selja lyf á tilteknum svæðum.
Ríkið stýrir að langmestu leyti verðlagningu á lyfseðilsskyldum lyfjum, bæði í heildsölu og smásölu. Hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum í heildsölu hér á landi ræðst eingöngu af verði annars staðar á Norðurlöndum, hvort sem um er að ræða almenn lyf sem sjúklingar kaupa sjálfir og borga að hluta úr eigin vasa, mjög dýr lyf sem ríkið borgar að fullu eða sjúkrahúslyf.
Lyfjagreiðslunefnd ákveður hámarksverð í heildsölu og smásölu á lyfjum, sem seld eru gegn lyfseðli. Ef heildsali vill selja lyfseðilsskyld lyf undir hámarksverði verður hann að tilkynna nefndinni það. Verð skal vera það sama um allt land. Smásalar mega veita afslátt en svigrúmið er lítið. Í fyrra var afsláttur á hámarksverði á lyfseðilsskyldum lyfjum í smásölu á bilinu ½ til 2 prósent og veita stærri keðjurnar alla jafna minni afslátt.