Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Misjöfn viðbrögð við nýrri ríkisstjórn: „Fer næstum í taugarnar hvað ég er sáttur við þetta upphaf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokk fólksins var kynnt í dag og eins og alltaf sýnist sitt hverjum.

Margir hafa tjáð sig á samfélagsmiðlunum í dag um hina nýju ríkisstjórn „Valkyrjanna“ en hér fyrir neðan má sjá viðbrögð nokkurra þekktra einstaklinga:

Helgu Völu Helgadóttur, lögmanns og fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar lýst mjög vel á ríkisstjórnina. Skrifaði hún eftirfarandi Facebook-færslu:

„Mér líst mjög vel á þessa nýju ríkisstjórn og ráðherrana sem þar munu nú taka til starfa. Sama má segja um stefnuskrána og hlakka til að fylgjast með starfi þessarar nýju ríkisstjórnar. Þarna er lykilatriði að samstaða ríki því held að við séum öll orðin buguð af þessum hnífasendingum milli stjórnarflokka sem við höfum þurft að þola frá því fyrir kosningarnsr 2021 sér í lagi frá Sjálfstæðisflokknum.

Til hamingju öll, vinir mínir sem nú takið við flóknum verkefnum. Ég veit að þið munuð standa ykkur.“

Píratinn Björn Leví Gunnarsson, sem datt af þingi í síðustu kosningum hrósar ríkisstjórninni fyrir að fá utanþingsráðherra í fjármálaráðuneytið. Hann ritaði á Facebook:

„Rosalega góð ákvörðun að fá utanþingsráðherra í fjármálaráðuneytið. Það þýðir að það ráðuneyti verður minna pólitískt og fagráðuneytin fá að bera meiri ábyrgð á fjármálum sínum.“

- Auglýsing -

Illugi Jökulsson, fjölmiðlamaður og rithöfundur segist vera hálf pirraður yfir því hversu ánægður hann sé með ríkisstjórnina.

„Eftir öll þessi ár og allar þessar misvitru ríkisstjórnir, þá finnst mér ég vera stjórnarandstæðingur í eðli mínu. Þess vegna fer það næstum í taugarnar hvað ég er sáttur við þetta upphaf. Mér finnst ég ætti að vera kvartandi og kveinandi. En þetta lítur bara vel út!“

Lögmaðurinn og þingmaður emeritus, Brynjar Níelsson hæðist auðvitað að hinni nýju ríkisstjórn og segist á Facegbook ætla að halda áfram að vera í fýlu.

- Auglýsing -
„Jæja, þá er komin á koppinn ný ríkisstjórn á Íslandi í anda Olaf Scholz í Þýskalandi, Keir Starmer í Bretlandi og Jonasar Gahr Störe í Noregi, sem eiga það sameiginlegt að hafa hrunið í fylgi á methraða í sínum löndum. En á Íslandi er mikill fögnuður sem jafna má við komu frelsarans þótt enginn af þessum flokkum hafi nokkurn tíma gert nokkuð gagn svo heitið geti.

Ég ætla samt að halda áfram að vera í fýlu, eins og ég hef verið síðustu ár og sumir segja svo lengi sem elstu menn muna. Kann ekkert annað og líður bara vel í fýlu. Ekki að ástæðulausu að ég er uppnefndur Ebbi á mínu heimili með tilvísun í Ebenezer Scrooge úr frægu jólaævintýri.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir sem var hársbreidd frá því að komast á þing í kosningunum er sorgmædd yfir því að ekkert hafi verið talað um útsvar á fjármagnstekjum á blaðamannafundinum. Skrifaði hún eftirfarandi tvær færslur á Facebook:

„Fyrstu viðbrögð við blaðamannafundi nýrrar ríkisstjórnar varðandi húsnæðismál:
Húsnæðismarkaðurinn var nefndur í kynningu nýrrar ríkisstjórnar og fjallað um bráðaðgerðir sem eigi m.a. að taka á skammtímaleigu, minnka á vægi verðtryggingar í íslensku hagkerfi og styðja á húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða.

Eins og við vitum þá eru húsnæðismálin eitt það stærsta sem þarf að laga í íslensku samfélagi, hefði viljað heyra meira um hvernig gott og réttlátt húsnæðiskerfi verður byggt upp.“

Og svo:

„Ekkert um útsvar á fjármagnstekjur hjá þessari nýrri ríkisstjórn? Við færsluna setti hún grátandi broskall.

Lilja D. Alfreðsdóttir, fráfarandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og notar tækifærið í færslu sinni á Facebook til að þakka fyrir undanfarin ár.

„Óska nýrri ríkisstjórn velgengni fyrir land og þjóð! 🇮🇸 Á þessari stundu fyllist ég þakklæti og auðmýkt. Það hafa verið mikil forréttindi að fá að vinna fyrir fólkið í landinu að fjölmörgum framfaramálum. Ég hef stýrt þremur ráðuneytum í tæp níu ár: utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Þetta hefur verið frábær tími með dásamlegu fagfólki. Hlakka til næsta tímabils.“

Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson stingur upp á nafni fyrir ríkisstjórnina:

„Það er nokkuð smart að valkyrjur kynni nýja ríkisstjórn á vetrarsólstöðum, á þessum hvarfpunkti þegar myrkrið byrjar að víkja fyrir hækkandi sól. Þetta er forn hátíðisdagur og stærri en þeir sem smokrað var í síðari tíma dagtöl.
Vetrarsólstöðustjórn gæti hún líka heitið.
Á eftir að lúslesa stjórnarsáttmálann og læt vera að leggja mat á hann núna. Margt þar hljómar vel en það má nú yfirleitt segja um flesta slíka sáttmála.
Mér þykir nokkuð klókt að sækja ráðherra fjármála utan þings úr faglegu umhverfi akademíunnar þó að Daði Már sé vitaskuld Viðreisnarmaður í þessu embætti.
Það er rétt að óska ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur velfarnaðar, svona á fyrsta degi. Væntanlega koma margir dagar síðar þar sem ég gagnrýni hennar verk – þekki ég mig rétt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -