Nóttin var afskaplega róleg samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en alls eru 72 mál skráð í kerfinu frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Enginn er vistaður í fangageymslu. Hér má sjá dæmi um verkefni lögreglunnar á umræddu tímabili.
Fjöldi bifreiða voru sektaðar í miðborginni vegna stöðubrota. Í Laugardalnum voru höfð afskipti af ökumanni en hann blés undir refsimörkum í áfengisprófunarmæli en var gert að hætta akstri. Reyndist bifreiðin ótryggð og því skráningarmerkin fjarlægð. Annar ökumaður var kærður fyrir að haga ökuhraða sínum ekki miðað við aðstæður. Ók hann of hratt þrátt fyrir hálku á akbrautinni og slæm birtuskilyrði sökum myrkurs. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu. Einn aðili var kærður fyrir ofbeldistilburði í miðborginni en ekki fylgir sögunni hvað hann nákvæmlega gerði af sér.
Í Garðabæ kom lögreglan auga á eftirlýsta bifreið og stöðvaði för hennar. Tveir aðilar voru handteknir en konan sem ók bílnum var grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna og fyrir að aka bifreið svip ökurétti. Bæði voru þau vistuð í fangaklefa þar til tekin var af þeim skýrsla vegna nytjastuldar.
Önnur kona var handtekin í Kópavogi grunuð um að keyra ölvuð. Sinnti hún ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og á því yfir höfði sér kæru fyrir athæfið sem og vegna fleiri umferðalagabrota. Kom síðan í ljós að konan reyndist próflaus í þokkabót. Var hún flutt á lögreglustöð til blóðsýnatöku og síðan sleppt að henni lokinni.
Í Breiðholtinu var tilkynnt um nokkra aðila sem réðust að tveimur en málið er í rannsókn. Þá var ökumaður í Kópavogi kærður fyrir að hafa ekið bifreið þrátt fyrir að vera sviptur ökurétti en um er að ræða marg ítrekað brot hjá viðkomandi. Einnig varð umferðaslys í Kópavoginum og skemmdust bílar eitthvað en engin slys urðu á fólki.
Eignartjón á bifreiðum varð eftir umferðaslys í Árbænum en engin slys urðu á fólki. Í sama hverfi var ökumaðuri handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja. Hefðbundið ferli fór í gang og var ökumaðurinn laus að sýnatöku lokinni. Þá var kona handtekin í Árbænum grunuð um ölvunar,- og fíkniefnaakstur. Reyndist hún einnig vera svipt ökuréttindum. Eftir sýnatöku var henni sleppt.