Leigubílstjóri tilkynnti greiðslusvik og hótanir til lögreglu í nótt. Bílstjórinn hafði ekið karlmanni og konu í Árbæ. Þegar hann óskaði greiðslu brást parið ókvæða við. Maðurinn hótaði bílstjóranum með eggvopni áður en konan hótaði að stinga hann með sprautunál. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um líkamsárás í miðbænum í nótt. Árásarþoli var með áverka á kviði og fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild. Árásaraðili var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Lögreglunni barst tilkynning um þjófnað í fjölbýlishúsi í Vesturbænum í gærkvöldi. Fjögur reiðhjól voru tekin úr hjólageymslu sameignar. Talið er að þjófurinn hafi komist inn um opinn glugga.
Töluvert var um ofurölvun í gær samkvæmt dagbók lögreglu. Þrír menn voru handteknir og vistaðir sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Þá var bifreið stöðvuð í miðbænum í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og hafði ökuskírteini sitt ekki meðferðis.
Tilkynnt var um umferðaróhapp á Heiðmerkurvegi í gær. Bifreið hafði ekið útaf og sat föst. Ökumaðurinn reyndist vera réttindalaus ung stúlka, hún aldrei öðlast ökuréttindi. Stúlkan hlaut engin meiðsl. Bifreiðin var losuð og færð í bifreiðastæði. Þá var tilkynnt um árekstur tveggja bíla á Dalvegi í gærkvöldi. Annar ökumaðurinn er aðeins 17 ára og er hann grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Faðir hans var viðstaddur sýnatöku á lögreglustöð.