Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að borgin loki mötuneytum starfsmanna til að styðja veitingahús í Reykjavík. Hildur telur að lokun mötuneyta verði til þess að hundruðir opinbera starfsmanna versli við veitingahús í borginni. „Borgaryfirvöld mættu vera atvinnulífi vinveittari,” skrifar hún í skoðanapistli í Fréttablaðinu.
„Í miðborg Reykjavíkur er fjöldi opinberra stofnana. Mörg hundruð opinberir starfsmenn snæða opinberan hádegisverð í opinberum mötuneytum dag hvern,” skrifar Hildur og bætir við: „Væri kannski ráð að draga saman seglin, loka hinum opinberu mötuneytum og styðja fremur við einkaframtak í nærumhverfi?” Hún segir það mætti útfæra án tjóns fyrir starfsfólk en miklum ágóða fyrir þá aðila sem stunda rekstur í miðbænum. „Hér gæti Ráðhús Reykjavíkur gengið á undan með góðu fordæmi.”
Hildur bendir á fleiri þætti sem gera rekstraraðilum erfitt fyrir, þá ekki síst stjórnsýsla borgarinnar: „Síhækkandi fasteignaskattar, svifasein stjórnsýsla og samráðsleysi hafa reynst litlum og meðalstórum fyrirtækjum óþægur ljár í þúfu. Það er tímabært að bregðast við.”
Hún telur framkvæmdir í miðbænum setja strik í reikninginn hjá veitinga- og verslunareigendum. „Gatnaframkvæmdir standa yfir í miðborg. Flestir skilja nauðsyn framkvæmdanna – en þegar aðkomu verslana og veitingastaða er raskað er nauðsyn að eiga í samtali við rekstraraðila.” Þá segir hún að þess hafi ekki verið gætt og margir orðið fyrir verulegu tjóni. „Málið sýnir skilningsleysi og hroka borgaryfirvalda gagnvart rekstraraðilum miðborgar. Samráð í tilkynningaformi án fyrirvara og samtals er engum til framdráttar.”