Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hundurinn Hnota fann eldri dóttur Sigríðar eftir snjóflóðið í Súðavík: „Biðin var skelfilega löng“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Rannveig Jónsdóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttarins Mannlífið. Hún hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á lífsleiðinni en í janúar árið 1995 missti hún unga dóttur sína í snóflóðinu í Súðavík sem og tengdaforeldra. Hér er brot úr fyrra hluta viðtalsins:

Þegar snjóflóðið skall á þorpið í Súðavík snemma morguns 16. janúar 1995, kastaðist Sigríður Rannveig út úr húsinu og fór heila 170 metra með flóðinu og endaði við pósthús bæjarins. Við þetta sleit hún meðal annars liðbönd í fæti og hlaut skurði. Í fyrstu hélt hún að snjóflóðið hefði aðeins lent á húsi hennar en sá svo fljótlega hina gríðarlegu eyðileggingu í þorpinu. Eftir svolítinn tíma hjálpa henni tveir menn að komast á bensínstöð í bænum en þar færir kona henni þurr föt og svo er beðið fregna af fjölskyldunni.

„Þarna er biðin alveg skelfilega löng,“ segir Sigríður Rannveig við Reyni Traustason. Og heldur áfram: „Það líða alveg fimm tímar þar til ég veit að eldri dóttir mín, Linda Rut er fundin. Og það er bara rétt eftir að þeir koma frá Ísafirði, björgunarsveitin frá Ísafirði. Og þá koma þeir með hunda og hún heitir Hnota, hundurinn sem fann Lindu. Þessir hundar vinna náttúrulega kraftaverk. Þeir voru fljótir að finna fólkið.“

Reynir: „Var hún þá bara í húsinu?“

Sigríður Rannveig: „Já, hún sem sagt var ennþá í rúminu sínu og hún svaf við burðarvegg og burðarveggurinn brotnar og hann hangir yfir henni þannig að hún er kjurr í rúminu sínu. Þessi burðarveggur hélt yfir henni verndarhönd. En hún var náttúrulega á kafi í snjó og gat ekki hreyft sig en hún hafði andrými þannig að hún gat andað. Hún svaf í rauninni mest allan tímann. Hún sagði mér það. Hún man ekki mjög mikið en hún man þegar þeir komu og voru að moka yfir henni. Hún var alveg viss um að það væri Ómar bróðir minn sem væri að finna hana og það var kallað á hana alveg; „Linda! Linda!“ og þá segir hún bara: „Ég er sprettlifandi!“ en hún var svo ísköld.“

Reynir: „Þannig að það hefur verið á síðustu stundu sem hún fannst?“

- Auglýsing -

Sigríður Rannveig: „Já. En systir hennar fannst síðan í herbergi við hliðina, 20 tímum síðar en það var kannski einn og hálfur metri á milli þeirra.“

Hægt er að sjá fyrri hluta viðtalsins í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -