- Auglýsing -
Lilja Dögg Alfreðsdóttir mærir tónlistargoðsögnina Magnús Eiríksson í nýrri færslu en hún afhenti honum Þakkarorðu íslenskrar tónlistar í byrjun desember.
Ríkisútvarpið sýndi í gær frá athöfn sem fram fór í Hörpu 1. desember síðastliðinn en þar var Magnúsi Eiríkssyni veitt Þakkarorða íslenskrar tónlistar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrverandi ráðherra afhenti Magnúsi orðuna en hún skrifaði síðan færslu í gær þar sem hún mærði tónlistarmanninn í hástert.
„Takk Maggi og takk íslensk tónlist!
Sannarlega einstakt kvöld með tónlistarmanninum Magnúsi Eiríkssyni en hann hlaut Þakkarorðu íslenskrar tónlistar, sem var veitt í fyrsta sinn í ár. Tónleikarnir voru sýndir í kvöld á RÚV en Þakkarorðan veitt 1. desember sl. Magnús er einstaklega vel að þessum heiðri kominn!“ Þannig hefst færsla Lilju Daggar en hún segir Magga (eins og Magnús Eiríksson er oftast kallaður) ekki aðeins færan tónlistarmann heldur hafi hann veitt fjölmörgum innblástur í gegnum tíðina.
„Maggi Eiríks, eins og þjóðin þekkir hann, er ekki bara iðinn og fær tónlistarmaður heldur hefur fjölbreytni hans gefið íslensku þjóðinni marga dýrgripi og fyllt fjöldann allan af listafólki innblæstri. Laga- og textasmiðnum, gítarleikaranum og söngvaranum Magga Eiríks eru færðar þakkir frá okkur öllum og um leið vil ég þakka öllu því stórbrotna tónlistarfólki sem flutti lög Magnúsar.“
Í færslunni segir Lilja Dögg einnig frá því hvernig Þakkarorðan kom til en þá bjó Lilja með eiginmanni sínum í Washington DC.
„Sagan á bak við þennan viðburð á rætur sínar að rekja til Washington DC ára okkar Magnúsar en þá horfðum við alltaf á ,,Kennedy Center Honors”. Ár hvert eru þarlendir listamenn heiðraðir. Við söknuðum þess að ekki væri gert svona vel við okkar listafólk. Það tókst að gera þetta að veruleika en þar á formaður Tónlistaráðs, Jakob Frímann Magnússon, mikinn heiður skilið ásamt framkvæmdastjóra Tónlistarmiðstöðvarinnar, Maríu Rut Reynisdóttur. Tónlistarfólkið sem stóð á sviðinu í kvöld er auðvitað magnað. Takk, takk! Einnig vil ég hrósa RÚV og Viktoríu Hermannsdóttur fyrir að koma þessu svona vel til skila. Svo er Þakkarorðan svo fallega gerð af Erlingi Jóhannessyni!“
Að lokum skrifar Lilja:
„Ég fyllist enn á ný lotningu yfir þeim fjársjóði sem listafólkið okkar er!“