Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur beðið þau hundruð barna sem máttu sæta grimmu ofbeldi á vistheimilum í þjónustu ríkisins afsökunar.
Málið á sér langan aðdraganda en fyrst var greint frá málinu í heimildamynd sem sýnd var árið 2005 og sagði frá grimmilegu ofbeldi á Godhavn drengjaheimilinu í norðausturhluta Danmerkur. Í kjölfarið létu samtök sem kenna sig við Godhavn-drengina gera óháða rannsókn á ásökunum og var niðurstaðan sú að hundruð barna, drengir og stúlkur, á 19 barnaheimilum víðs vegar um Danmörku hafi sætt líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi.
Ofbeldið átti sér stað á árunum 1945 til 1976. Þolendurnir, sem nú eru flestir komnir vel á fullorðinsaldur, hafa frá því málið komst í hámæli barist fyrir því að danska ríkið gangist við ábyrgð sinni og biðjist afsökunar. Sú barátta vannst loks í morgun þegar Frederiksen, sem tók við embætti í júní, bauð þolendum á heimili sitt þar sem hún bað þau öll afsökunar. „Ég vil horfast í augu við hvert og eitt ykkar og segja fyrirgefðu. Ég get ekki tekið sökina en ég get axlað ábyrgðina,“ sagði Frederiksen. Hún sagði danska ríkið hafa brugðist þolendunum, það hafi tekið börn af foreldrum sínum og í stað þess að sýna þeim hlýju og stuðning hafi þau þurft að þola niðurlægingu og misnotkun.
Í ofangreindri heimildamynd er sagt frá grimmilegum misnotkunum sem börnin máttu þola. Til að mynda hafi læknar prófað lyf á börnunum, meðal annars LSD. Fjölmargar frásagnir eru af líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi þar sem jafnvel var notast við barefli.
Margir þolendanna hafa aldrei beðið þess bætur eftir vistina á þessum heimilum og eiga mörg þeirra sögu um áfengis- og fíkniefnavanda. Enginn hefur verið látinn svara til saka vegna málsins en talsmaður þolenda vill að sett verði á leggirnar nefnd sem verði ætlað að ákvarða miskabætur til handa þolendum.