Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Af hverju fannst mér í lagi að borða nautakjöt en ekki hval eða kálf?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Theodór Eggertsson rithöfundur sendi nýlega frá sér bókina Sláturtíð, ferðasögu sem veltir upp ýmsum hliðum á samfélagsmálefnum á borð við veganisma og dýrasiðfræði.

„Ég hef haft áhuga á dýrum síðan ég var strákur og álitið
mig dýravin, eins og margir, án þess endilega að velta fyrir mér hvað það þýði
að segjast vera vinur dýra,“ segir Gunnar. „Ég hef alltaf reynt að sýna dýrum
samúð, þótt það hafi lengi vel ekki náð til allra dýrategunda. Gáttin inn í
dýrasiðfræðina opnaðist þegar ég fylgdist með Greenpeace-liðum mótmæla
hvalveiðum og grilla svo kálfakjöt niðri við Reykjavíkurhöfn – það stuðaði mig
einhvern veginn svo illa að ótal spurningar kviknuðu í kjölfarið. Sjálfur
neytti ég nautakjöts, en hvers vegna þótti mér það eðlilegt, en ekki að éta
hval eða kálf?“

Þetta var sumarið 2003. Upp úr þessu varð Gunnar grænmetisæta og
fór jafnt og þétt að kynna sér helstu rit dýrasiðfræðinnar. „Mastersverkefnið
mitt frá Amsterdam-háskóla endaði á að blanda saman hrollvekjum og dýrasiðfræði
– sem reyndist umdeilt innan deildarinnar – og eftir það komst ég í kynni við
nýja fræðigrein, „animal studies“, nokkurs konar menningarlega dýrasiðfræði, og
ákvað að sérhæfa mig í því í doktornum, með áherslu á bókmenntir.“

„Við gerum mikið úr tilfinningalífi einnar tegundar – gæludýra til dæmis – en lítið úr sálarlífi annarra – svo sem sláturdýranna – og við upphefjum villt dýr, svo lengi sem þau halda sig á réttum stöðum.“

Gunnar skrifaði svo doktorsritgerð sem hann varði við
hugvísindadeild Háskóla Íslands árið 2016. „Hún tók dýrasögur fyrir sem
bókmenntaform og í örstuttu máli færði ég rök fyrir því að dýrasögur – þ.e.
bókmenntir skrifaðar frá sjónarhorni annarra dýrategunda eða með líf dýra fyrir
miðju frásagnar á einn eða annan hátt – væru í eðli sínu róttækt form
andófsbókmennta og þær beri að taka alvarlega sem slíkar, en ekki að gera lítið
úr þeim, eins og gjarnan er gert í fræðunum.“

Sláturtíð er fimmta skáldsaga Gunnars og fjallar um leikstjóra í
leit að aktífista sem hefur ekki sést síðan hún losnaði úr fangelsi fyrir
hryðjuverk til að bjarga dýrum. Gunnar Theodór hóf vinnu við bókina samhliða
rannsóknum sínum í doktorsnámi um dýrasiðfræði og samtímamenningu. „Ýmislegt í
sögunni byggir á minni eigin reynslu, bæði af mótmælum, af kynnum við aktífista
og af samtölum sem ég hef átt í gegnum tíðina, en auðvitað er allt saman ýkt og
breytt og bogið og beyglað í nafni frásagnarlistarinnar.“

Útrás að fjalla um fræðiefnið á annan hátt

Þó bókin sé að mörgu leyti byggð á reynslu Gunnars segir hann að
hún sé fyrst og fremst skáldskapur. „Þótt finna megi brotakennda útgáfu af
höfundinum, dreifðum yfir allar persónur bókarinnar, þá eru þær allar saman
sjálfstæðar á sinn hátt. Sagan getur verið persónuleg, án þess þó að
höfundurinn sé persóna,“ segir Gunnar.

- Auglýsing -
Sláturtíð fjallar um leikstjóra í leit að aktífista sem hefur ekki sést síðan hún losnaði úr fangelsi fyrir hryðjuverk til að bjarga dýrum.

Hann segir að í raun séu tvær ástæður fyrir því að hann ákvað að
skrifa skáldsögu samhliða doktorsnáminu. „Annars vegar hefur mig lengi langað
til að skrifa skáldsögu fyrir fullorðna og þarna fann ég loksins efnivið sem ég
treysti mér til að vinna með. Hins vegar var af svo miklu áhugaverðu að taka í
doktorsnáminu að mig langaði til að fjalla um alls konar pælingar sem ekki var
pláss fyrir í ritgerðinni sjálfri. Fræðivinnan á líka til að vera dálítið
kæfandi – það þarf að vega og meta allt vandlega, skoða hugmyndir frá öllum
hliðum og viðhalda fræðilegri yfirsýn og hlutlausum tón – og oft á frekar
sterílan  máta. Stundum þurfti ég bara að fá útrás og fjalla um efnið á allt annan hátt, koma lífi í hugmyndafræðina og jafnvel skvetta smávegis blóði í leiðinni. Búa til erfiðar aðstæður og fleygja persónum ofan í djúpu laugina, leyfa þeim að rífast og haga sér illa, nálgast þversagnirnar af meiri nánd með því að færa þær beinlínis inn í frásögn, losna
við fræðilegu silkihanskana, ef svo má að orði komast. Þannig lifnaði sagan
smátt og smátt við, ég byrjaði að skrifa hana 2013 og nú, sex árum síðar, er
hún loksins flogin úr hreiðrinu.“

Stefnir á frekari útgáfu

Sláturtíð er fyrsta skáldsaga Gunnars sem hugsuð er fyrir fullorðna lesendur. „Ég á þó að
baki smásögu, hrollvekjuna Vetrarsaga. Hún var skrifuð fyrir fullorðna, kom út
2005 og hlaut Gaddakylfuna það árið. Sem stendur vinn ég að þriðju bók minni um
ungnornina Dísu en við sjáum hvernig viðtökurnar verða með Sláturtíðina – ég er
með aðra fullorðins á vinnuborðinu sem mig langar að glíma við næst.“

„Stundum þurfti ég bara að fá útrás og fjalla um efnið á allt annan hátt, koma lífi í hugmyndafræðina og jafnvel skvetta smávegis blóði í leiðinni.“

- Auglýsing -

Í doktorsnáminu skoðaði Gunnar fyrst og fremst 19. aldar dýrasögur, íslenskar og erlendar. „Sem stendur vinn ég að framhaldsverkefni sem snýst um að safna saman þeim allra bestu og áhugaverðustu og vonandi fá þær útgefnar, enda eiga þessar sögur ekki síður erindi til lesenda nú en fyrir 150 árum.“

Elskum gæludýr en hlutgerum húsdýr

Gunnar talar um þversagnir innan dýrasiðfræðinnar og okkur leikur forvitni á að vita að lokum hverjar hann telji þær vera. „Þversagnirnar spretta upp úr togstreitunni á milli þess sýnilega og ósýnilega varðandi samlífi okkar mannfólksins við önnur dýr, og upp úr fjarlægðinni sem hefur myndast á milli okkar og annarra dýra í nútímasamfélagi. Við gerum mikið úr tilfinningalífi einnar tegundar – gæludýra til dæmis – en lítið úr sálarlífi
annarra – svo sem sláturdýranna – og við upphefjum villt dýr, svo lengi sem þau
halda sig á réttum stöðum. Við elskum gæludýr en hlutgerum húsdýr, höldum
beikonhátíð í bænum og fordæmum hundaslátrun í öðrum löndum, dáumst að ljónum í
dýragörðum en skjótum ísbirni sem koma inn á „okkar“ svæði. Og svo framvegis,
það er af nógu að taka. Þetta eru pælingar sem kveikja oft líflegar umræður og
ég hef til dæmis kennt nokkur námskeið við HÍ sem taka á dýrasiðfræðinni og
fundið fyrir miklum áhuga nemenda til að tala um hinar ýmsu þversagnir, þótt
við séum ekkert endilega að fara að leysa þær svo glatt. Slíkar umræður tel ég
afar hollar og mikilvægt að halda efninu lifandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -