Síðast en ekki síst
Höfundur/Stefán Pálsson
Fyrr á árinu var sagt frá hugmynd bæjaryfirvalda á Akureyri að koma upp styttu af myndasöguhetjunni Tinna.
Tillagan er ekki úr lausu lofti gripin, enda liggur leið belgíska blaðamannsins kornunga til Akureyrar í einu af ævintýrum söguhetjunnar og ljóst er að erlendir ferðamenn myndu slást um að fá að mynda sig við hliðina á slíkri styttu. Sá galli kann þó að vera á gjöf Njarðar að erfingjar Hergés, höfundar Tinnabókanna, eru frægir fyrir samningshörku og hætt við að þeir geri kröfur um háa þóknun eigi styttan að verða að veruleika.
En ef til vill er hér leitað langt yfir skammt. Við Íslendingar eigum okkar eigin myndasöguhetjur sem vert væri að halda á lofti og það persónur með víðtækari skírskotunum til íslenskrar sögu og menningar en Tinni, þótt heimsfrægur sé.
Upp í hugann kemur Sigga Vigga, fiskverkakonan æðrulausa sem Gísli J. Ástþórsson skapaði. Þann níunda maí 1959 birti Gísli, þá ritstjóri Alþýðublaðsins, skopmynd af stelpuhnátu í verkamannagalla, með naglaspýtu á lofti, sem grætti breskan flotaforingja. Myndin birtist í miðju Þorskastríði og rataði í erlend stórblöð, þar á meðal London Times.
Þessi litla skopmynd vatt upp á sig og fljótlega varð til fullvaxna fiskverkakonan Sigga Vigga, sem stritar hjá saltfisksvinnslunni Þorski hf. Upp spratt sagnaheimur sem fjallaði um íslenskt fiskvinnslufyrirtæki, verkafólk, verkstjóra og atvinnurekendur með ótal bröndurum sem skírskotuðu til daglegs lífs.
Sögurnar um Siggu Viggu eru magnaðar. Ekki bara vegna þess að þær tilheyra fyrstu kynslóð íslenskra myndasagna, heldur vegna yrkisefnisins. Myndastytta af Siggu Viggu á svæði Reykjavíkurhafnar væri þrungin vísunum í þorskastríð, fiskvinnslu og verkalýðsbaráttu í Reykjavík stóran hluta tuttugustu aldar. Í bókmenntaborginni Reykjavík vantar styttur af bókmenntapersónum, konum og láglaunafólki. Hér yrði flugnager slegið í einu höggi.