Hinn norski læknir Mads Gilbert birti í gær myndskeið sem sýnir ísraelska hermenn fela sig í sjúkrabíl áður en þeir gera skotárásir á óbreytta borgara, sem er brot á alþjóðlegum mannúðarlögum.
Dr. Mads Gilbert, sem hefur starfað reglulega á Gaza síðustu áratugina, hefur verið afar iðinn í baráttunni gegn þjóðarmorði Ísraela á Palestínumönnum. Í nýlegri færslu birti Gilbert myndskeið sem tekið var fyrir tveimur vikum síðan. Þar sjást ísraelskir hermenn fela sig í sjúkrabíl áður en þeir hefja skothríð á saklausa borgara.
Gilbert skrifaði við færsluna: „Enn og aftur sjáum við að það er ísraelska hernámsliðið sem felur sig ólöglega í sjúkrabíl til að ráðast á óbreytta borgara, EKKI andspyrnuhreyfingu Palestínumanna.“
Bætti hann við: „Myndband sem tekið var fyrir tveimur vikum leiddi í ljós hvernig ísraelski herinn og leyniþjónustan notuðu sjúkrabíl til að gera árás á Balata-flóttamannabúðirnar í Nablus. Í árásinni drap Ísraelsher gamla saklausa konu og aðra manneskju. Það er bannað að nota sjúkrabíla til hernaðaraðgerða, samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.“
Francesca Albanese, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna skrifaði einnig færslu á X þar sem hún fordæmir aðferðir Ísraelshers:
„Misnotkun á verndaðri stöðu sjúkrabifreiða og starfsfólks er gróft brot á Genfarsáttmálanum og gæti flokkast undir trúnaðarglæp (e. crime of perfidy). Með því að vanvirða kerfisbundið alþjóðalög, hefur Ísrael gert lagarammann sem ætlað er að vernda óbreytta borgara, algjörlega tilgangslausa.“
Hér má sjá myndskeiðið:
View this post on Instagram