Ólga er innan stjórnendateymis fjölmiðlarisans Sýnar. Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri samsteypunnar, kom til starfa um miðjan janúar 2024. Ári síðar brenna eldar óyndis innan Sýnar og lykilfólk segir upp störfum.
Orðrómurinn á göngum Sýnar er að nýji forstjórinn ráði illa við starfið. Hún er sökuð um klíkuráðningar, meðal annars þegar hún réði Kristjönu Thors Brynjólfsdóttur, sem framkvæmdastjóra Miðla og efnisveitna. Þar eru nefnd persónuleg tengsl.
Fyrirtækið varð fyrir mikilli blóðtöku í vikunni þegar Eva Georgsdóttir, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, sagði upp störfum. Í gær kvaddi sjónvarpskonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir fast starf hjá Sýn eftir sextán ára starf á Stöð 2. Hún auglýsti jafnframt á Facebook eftir spennandi vinnu.
Óánægjan er sögð ráðast af því að forstjórinn sé með sína sýn á hlutina og ætli að koma henni í framkvæmd, hvað sem það kostar. Niðurskurður og fækkun fólks hefur litað starfsemi miðlanna. Á sama tíma fellur verð á hlutabréfum félagsins og er komið að sársaukamörkum. Stærstu hluthafaranir hafa tapað milljörðum króna ef notaður er sá mælikvarði. Kaupréttur sem starfsmönnum býðst er sagður vera einskis virði eins og staðan er núna.
Fleiri lykilstarfsmenn sjónvarps Sýnar eru samkvæmt heimildum Mannlífs að leita sér að vinnu og hyggjast segja upp störfum á næstu dögum …