Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Rætt um að loka fréttastofu Stöðvar 2 og breyta í Sýn – Hluthafar stressaðir og verð Sýnar fellur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gríðarleg ólga er á meðal stjórnenda innan Sýnar vegna niðurskurðar og stjórntaka forstjórans Herdísar Fjeldsted. Miklar aðhaldsaðgerðir eru í gangi á sama tíma og félagið hefur fallið í verði um allt að 30 prósent á einu ári og 37 prósent í tíð Herdísar. Miðað við þann mælikvarða hafa stærstu hluthafarnir tapað  milljörðum króna.

Stærsti einstaki eigandinn er Gavia Invest sem er að miklu leyti í eigu Reynis Grétarsson, fyrrverandi eiganda Creditinfo. Sá hópur fer með 18,23 prósent í félaginu og hefur verið leiðandi í félaginu. Reyni og félögum er kennt um þá klemmu sem félagið er komið í. Lífeyrissjóðir eiga á milli 30 og 40 prósent í Sýn.
Enginn arður
Staða félagsins hefur mikil áhrif á eigendur sem eru margir með vaxtaberandi skuldir en fá ekki arð út úr félaginu. Sú skoðun er uppi á meðal einhverra þeirra að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til fá meiri verðmæti út úr Sýn. Bent er á að upplausnarvirði félagsins sé gríðarlegt og allt að þrefalt hærra en það verð sem endurspeglast á markaði. Með því að selja út einingar á borð við Stöð 2, Vísi, fjölsóttasta vef landsins, útvarpsstöðina Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar megi snúa við dæminu, hluthöfum í hag. Aðeins yrði haldið eftir fjarskiptahluta Vodafone.
Bylgjan verði Sýn
Aðrir vilja styrkja innviði félagsins með því að breyta um nöfn á miðlunum. Herdís forstjóri er talin vera á þeirri skoðun. Vísir tæki þá upp nafn Sýnar einnig, Sýn.is. Þá verður Stöð 2 að Sýn, Stöð 2 Sport yrði Sýn Sport. Útvarpsstöðvarnar yrðu Sýn 989, Sýn 957, Sýn 977 og svo framvegis Þannig yrði farin sama leið og Síminn hefur gert með því að kenna sjónvarpsstöð sína við Símann Þessi hugmynd er af helstu andstæðingum hennar talin vera algjör firra.

 

Fréttastofu lokað

Aðrir sparnaðarliðir sem nefndir eru til að bjarga rekstrinum eru þeir að hætta fréttum á Stöð 2 og leggja niður fréttahluta sjónvarps. Þarna sparast með því að segja upp starfsmönnum sjónvarpsins. Á móti kemur að Vísir og fréttastofan eru nátengd og lokunin myndi veikja vefinn. Hermt er að hvaða leið sem verði farin umun leiða til þess að fréttastofunni verði lokað og Stöð 2 breytt í að vera fyrst og fremst afþreyingarsjónvarp.

Engin leið er að spá fyrir um það hvað stjórn Sýnar gerir til að snúa málum sér í hag. Stærstu hluthafarnir eru sammála um að bregðast við ástandinu með því að skipta fyrirtækinu upp og selja ákveðnar einingar út. Verðmæti Vísis og útvarpsstöðvanna nemur rúmum 7 milljörðum samkvæmt tilboði sem Síminn gerði á sínum tíma. Heimildir Mannlífs herma að stórra tíðinda sé að vænta.

Ég er ennþá starfsmaður

Lykilmenn hafa hætt störfum hjá Sýn undanfarið vegna óánægju með framvinduna og starfshætti forstjórans. Þá liggur í loftinu að fleiri munu hætta á næstunni. Þetta ástand mun vera á borði stjórnarmanna. Mannlíf ræddi við Evu Georgsdóttur, fyrrverandi sjónvarpsstjóra Stöðvar 2, sem hætti nýverið störfum. Hún vildi ekkert tjá sig um framangreint eða samskiptin við forstjórann sem og bar við trúnaði . „Ég er ennþá starfsmaður Sýnar,“ sagði hún og baðst undan svörum.

Ekki náðist í Herdísi forstjóra sem svaraði ekki símtölum Mannlífs.

Helstu eigendur Sýnar:
Gavia Invest ehf.45.147.12818,23%
Gildi – lífeyrissjóður39.490.65515,95%
Reir ehf.20.650.0008,34%
Arion banki hf.15.605.2166,30%
Lífeyrissjóður verzlunarmanna13.822.4855,58%

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -