Nóttin var frekar róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en fimm aðilar voru vistaðir í fangageymslu á þessu tímabili og 60 tilkynningar bárust. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Hér eru nokkur dæmi.
Ökumaður bifreiðar var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var ökumaðurinn einnig grunaður um að aka ekki miðað við aðstæður, svigaakstur og að gefa ekki stefnuljós. Eftir að lögreglan hafði tekið blóðsýnatöku var ökumanninum sleppt úr haldi.
Lögreglu barst tilkynning um sótölvaðan einstakling í hverfi 108. Var honum hjálpað til síns heima.
Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot í hótel í miðborg Reykjavíkur en málið er í rannsókn. Einnig barst tilkynning um þjófnað í matvöruverslun á Seltjarnarnesi.
Í Hafnarfirði varð umferðarslys en dráttarbíl þurfti til að fjarlægja bæði ökutækin en málið er í rannsókn. Á svipuðu svæði var ökumaður bifreiðar handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur en hann var laus eftir blóðsýnatöku lögreglu.
Lögreglan sem annast tilkynningar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, hafði afskipti af ökumanni sem olli umferðarslysi. Reyndist ökumaðurinn ölvaður og var handtekinn á staðnum. Þá hafði lögreglan einnig afskipti af ökumanni sem reyndist aka undir áhrifum áfengis. Var honum sleppt að lokinni blóðsýnatöku.