Sigurjón Ólafsson, sem dæmdur var í gær í átta ára fangelsi fyrir að nauðga ítrekað andlega fatlaðri konu, starfaði sem verslunarstjóri í Hagkaupum um árabil. Þá var hann verslunarstjóri Byko í skamma stund áður en málið kom á borð lögreglu.
Sigurjón Ólafsson, ríflega fimmtugur, hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að hafa ítrekað nauðgað andlega fatlaðri konu á árunum 2016 til 2020 sem og fyrir að láta aðra menn hafa við hana kynferðismök. Þá braut hann einnig kynferðislega á andlega fötluðum syni hennar og kærustu hans, þegar pilturinn var á unglingsaldri.
Mannlíf sagði frá málinu fyrst allra miðla í byrjun nóvember á síðasta ári en nú hefur verið dæmt í málinu.
Sjá einnig: Verslunarstjóri grunaður um kynferðisbrot gegn fatlaðri starfskonu sinni
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að vegna alvarleika brotanna sé refsingin ekki skilorðsbundinn.
Í dóminum kemur fram að Sigurjón hafi notfært sér að konan, sem var undirmaður Sigurjóns, hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna andlegrar fötlunar sinnar og hafi beitt hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og aðstöðumun, sem og traust hennar vegna stöðu hans gagnvart henni, þar sem Sigurjón var yfirmaður hennar þegar brotin áttu sér stað.
Tekið er fram í dóminum að Sigurjón hafi misnotað gróflega þá aðstöðu sína að hún var háð honum í atvinnu sinni. Sigurjón fékk einnig aðra karlmenn til að eiga við konuna kynmök en þeir eru ekki ákærðir.
Vegna óútskýrða tafa á rannsókn málsins var ekki hægt að hafa dóminn þyngri en hann var.
Í frétt RÚV frá því í desember kom fram að Sigurjón sé giftur og eigi börn og barnabörn.
Auk hinna átta ára fangelsisvistunar, er honum gert að greiða konunni fimm milljónir króna, og syni hennar, sem einnig er andlega fatlaður, 1,2 milljónir króna. Þarf hann aukreitist að greiða kærustu sonarins hálfa milljón.
Mannlíf sendi fyrirspurn á framkvæmdarstjóra Hagkaupa í nóvember þar sem beðið var um staðfestingu á að Sigurjón hefði starfað þar sem verslunarstjóri en svarið sem barst var eftirfarandi:
„Hagkaup hyggst ekki tjá sig um einstaklinga, þar á meðal starfsfólk sitt eða fyrrverandi starfsfólk.“
Samkvæmt heimildum Mannlífs starfaði Sigurjón sem verslunarstjóri hjá Byko þegar lögreglan fékk málið á sitt borð. Var honum sagt upp um leið og það gerðist.