Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Herdís huggar starfsmenn Sýnar í skugga uppsagna: „Þetta er fjarri lagi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Her­dís Dröfn Fjeld­sted, forstjóri Sýnar, sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf í kjölfar umfjöllunar Mannlífs um fyrirtækið í síðustu viku.

Í bréfinu reynir forstjórinn að hugga starfsmenn og heldur því fram að umfjöllun Mannlífs sé röng. Í bréfinu fullyrðir forstjórinn að ekki hafi komið til tals að loka fréttastofu Stöðvar 2 og ekki standi til að breyta nöfnum á útvarpsstöðum fyrirtæksins. Hún tekur þó fram að skoðun á vörumerkjunum Vodafone og Stöð 2 standi ennþá yfir.

Umfjöllun Mannlífs snérist einnig um ósætti innan fyrirtækisins varðandi stjórnun Herdísar og starfsmenn sem hún hefur ráðið í lykilstöður innan þess. Talið er að uppsagnir Evu Georgs. Ásudóttur og Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur tengist því með beinum hætti en þær voru báðar lykilstarfsmenn innan fyrirtæksins og báðar með mikla reynslu. Herdís svaraði ekki þeirri umfjöllun í bréfi sínu en þakkaði fjölmiðlakonunum fyrir vinnuframlag sitt. Síðan forstjórinn ritaði bréfið til starfsmanna Sýnar hefur Þóra Björg Clausen sagt upp störfum sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 og er því þriðji lykilstarfsmaður Stöðvar 2 sem tilkynnir um uppsögn sína á árinu.

Herdís hefur ekki viljað veita Mannlíf viðtal vegna málsins.

Hægt er að lesa bréf Herdísar til starfsmanna hér fyrir neðan:

Sælt kæra samstarfsfólk,

- Auglýsing -

Í tilefni fréttaflutnings Mannlífs í dag vil ég koma á framfæri leiðréttingum og útskýringum vegna rangfærslna sem þar koma fram. Það er mikilvægt fyrir mig að þið, samstarfsfólk mitt, hafið skýrar upplýsingar og traust á því sem er í gangi innan fyrirtækisins.

Eins og þið vitið höfum við undanfarið unnið saman að stefnumótun sem tók mið af sýn ykkar allra. Um 70 manns tóku beinan þátt í þessari vinnu fyrir hönd sinna sviða og við kynntum ykkur fyrstu drög á starfsmannadeginum í nóvember. Þessi stefna byggir á metnaði okkar til að efla Sýn sem öflugt fjölmiðla- og tæknifyrirtæki.

Ég vil leggja áherslu á að engin stefnubreyting hefur átt sér stað hvað varðar rekstur vefmiðla og útvarps. Ákvörðunin sem tekin var í apríl á síðasta ári um að halda þessum eignum innan fyrirtækisins stendur óbreytt.

- Auglýsing -

Einnig vil ég leiðrétta að engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2 eða niðurfellingu kvöldfrétta. Slíkar hugmyndir hafa einfaldlega ekki komið til umræðu.

Varðandi vörumerkin okkar þá eru þau mörg verðmæt og vel þekkt. Hluti af stefnumótunarvinnunni er skoðun og greining á virði vörumerkja í eigu Sýnar heilt yfir.

Víðtæk greining hefur nú þegar verið unnin og m.a. tekin viðtöl við viðskiptavini og starfsmenn Sýnar. Svo að það sé alveg skýrt þá er alls ekki fyrirhugað að hætta að nota vörumerki útvarps- eða vefmiðla Sýnar og hérna á ég við Bylgjuna, Vísi, FM, já og áfram mætti telja. Okkur hefur til að mynda aldrei dottið Sýn 989 í hug í stað Bylgjunnar en þetta er fjarri lagi og bara broslegt.

Frekari skoðun á vörumerkjunum Vodafone og Stöð 2 er ekki lokið og því er ekki tímabært að ræða hvað við munum gera hvað þetta varðar. En hérna munum við hlusta á viðskiptavini félagsins sem eru jú hjartað í öllu sem við gerum.

Mannabreytingar eru hluti af öllum breytingaferlum. Því miður höfum við þurft að kveðja tvær framúrskarandi samstarfskonur, Evu Georgs og Sigrúnu Ósk, sem hafa tekið ákvörðun um að láta af störfum. Mig langar að þakka þeim báðum fyrir ómetanlegt framlag þeirra til félagsins. Þær starfa áfram með okkur næstu vikurnar, og ég óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Framundan eru spennandi verkefni sem ég hlakka til að vinna með ykkur að. Ég er sannfærð um að við höfum alla burði til að gera Sýn að einu öflugasta fyrirtæki landsins þar sem við erum stolt af starfi okkar og okkur líður vel. Ég er alltaf til í samtal við ykkur ef eitthvað er óljóst.

Kær kveðja og góða helgi, Herdís

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -