Augu Íslendinga hafa smám saman verið að opnast fyrir því hvílíkur forseti Vigdís Finnbogadóttir var á sinni tíð. Líklegt er að enginn forseti hafi haft slík áhrif sem Vigdís hafði Íslandi til góðs á heimsvísu.
Ég kynntist Vigdísi ekki á meðan hún var forseti. Í forsetakosningunum 1980 kaus ég hana ekki. Ég studdi Albert Guðmundsson og var reyndar umboðsmaður hans vestur á fjörðum. Þegar Albert hafði samband og bað mig að gæta hagsmuna sinna fyrir vestan gat ég ómögulega neitað honum. Hann hafði hnippt í Alþýðubankann þegar ég þurfti lán til að halda áfram húsbyggingu minni á Flateyri.
Móðir mín var ekki ánægð með vegtyllu mína sem umboðsmaður Alberts. Hún studdi Vigdísi af miklum eldmóði. Félagar mínir á togaranum Guðbjarti ÍS voru á sömu slóðum. Þeir höfðu sammælst um að styðja Vigdísi og sendu henni skeyti með áskorun um að fara í framboð. Þessi stuðningur skipti sköpum og Vigdís tók slaginn. Við Albert urðum svo að lúta í gras þegar hún, kannski sem betur fer, var kosin forseti Íslands.
Árin 2001 og 2002 vann ég að ævisögu Sonju Wendel Benjamínsson Zorrilla. Vigdís og Sonja höfðu verið vinkonur um árabil og deilt sumarbústað við Þingvallavatn og mig langaði að heyra hlið Vigdísar á vinskap þeirra. Ég hringdi í forsetann fyrrverandi og bar upp erindið. Hún samþykkti strax að hitta mig. „Eigum við ekki að skreppa á Þingvöll?“ spurði hún glaðlega. Auðvitað samþykkti ég það strax.
Það gladdi mig hve vel hún tók erindi mínu og þá ekki síst vegna þess að ég hafði áður stuðað hana með fréttaskrifum sem mörkuðu þáttaskil í umfjöllun um forseta Íslands. Það var árið 1992 að ég kom sem sumarstarfsmaður á ritstjórn DV eftir að hafa verið um árabil fréttaritari á Flateyri og á Vestfjarðamiðum. Jónas Kristjánsson ritstjóri sendi mig á fund þar sem átti að ræða árangur af umdeildri ráðstefnu um loftslagsmál sem haldin var í Ríó. DV hafði fjallað með óvægnum hætti um bruðlið sem fólst í því að senda her á ráðstefnu sem ekki væri til mikils gagns. Jónas sagði mér að þar yrðu Eiður Guðnason umhverfisráðherra og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands. Ég mætti á fundinn og mér leiddist framan af. Innihaldslaust tal embættismanna og sjálfshól stjórnmálamanna litaði samkomuna.
En svo færðist fjör í leikinn. Vigdís tók til máls það var þungt í henni vegna skilningsleysis þjóðarinnar á ráðstefnunni.
„Sumir hugsa með klofnu höfði,“ sagði hún meðal annars.
Ég sá um leið frábæra fyrirsögn í málinu og punktaði orð hennar nákvæmlega niður. Eftir tveggja tíma setu fannst mér tímabært að fara. Ég ræddi málin við ljósmyndarann sem sagði mér að það væri þegjandi samkomulag fjölmiðla um að segja ekki frá því þegar forsetinn væri úfinn og í vondu skapi. „Þannig fréttir tíðkast ekki,“ sagði hann alvarlega við reynslulausan fréttaritarann sem fátt vissi um samtryggingu. Ég var undrandi en beygði mig fyrir hefðinni.
Ég kom tómhentur á ritstjórnina þar sem ég hitti Jónas ritstjóra fyrir. Hann spurði hvernig fundurinn hefði gengið og ég sagði honum sem var að mesti tíminn hefði farið í að agnúast út í fjölmiðla og þá ekki síst leiðarahöfund DV. Forsetinn hefði farið mikinn. Það lifnaði yfir Jónasi. „Af hverju skrifarðu það ekki maður?“ spurði hann og atti mér á foraðið. Ég steig skrefið og rauf þar með þagnarmúrinn um forsetann. Fyrirsögnin var að sjálfsögðu „Sumir hugsa með klofnu höfði“.
Fréttin birtist 2. júlí 1992 á blaðsíðu 13. Urgur var í mörgum vegna þess að DV braut hefðina og lýsti viðbrögðum forsetans. Kona nokkur skrifaði reiðipistil í Velvakanda Moggans og vildi vita hver þessi rt væri eiginlega. Það mátti skrifa um sólskinið en ekki rigninguna.
Mér finnst lífið litlausara
Það voru komin níu ár frá þessum skrifum þegar við Vigdís ókum sem leið lá um Mosfellsdal og til Þingvalla. Fimm ár voru síðan Vigdís hætti sem forseti. Sonja lést nokkrum mánuðum áður. Vigdís lék við hvern sinn fingur á leiðinni og sagði mér sögur af þeim Sonju. Þegar við komum í bústaðinn sýndi hún mér allt í krók og kima og minningarnar frá liðnum árum streymdu fram. Ég var algjörlega heillaður af því hversu alþýðleg hún var í tali og fasi. Eftir að hafa dvalist í bústaðnum í hluta úr degi héldum við aftur heimleiðis. Ég spurði Vigdísi hvort hún væri til í að rita formálsorð að bókinni. Hún sagðist gera það með mikilli ánægju. Við kvöddumst með virktum. Nokkrum vikum síðar skilaði hún formála bókarinnar „Mér finnst lífið litlausara að henni genginni…,“ skrifaði Vigdís meðal annars um vinkonu sína.
Um haustið 2002 færði ég Vigdísi eintak af bókinni sem bar titilinn, Sonja, líf og leyndardómar. Við hittumst á heimili hennar á Aragötu. Hún tók mér af sömu hlýjunni og áður. Við spjölluðum saman drykklanga stund áður en ég hélt mína leið. Síðan höfum við ekki hist.
Eftir samskiptin við Vigdísi fyrir tæpum aldarfjórðungi hefur mér alltaf þótt vænt um hana og virðingin er takmarkalítil. Vigdís var fyrsta konan á heimsvísu til að gegna embætti forseta Íslands. Embættið bar hún sem þeirri reisn sem fylgir útgeislun, fegurð og gáfum glæsikonu. Ég sé dálítið eftir því að hafa ekki kosið hana upphaflega en hugga mig við að mamma studdi hana. Takk fyrir mig Vigdís.