- Auglýsing -
Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu mæta Grænhöfðaeyjum á HM í handbolta á morgun. Íslendingar verða eflaust flestir límdir fastir við skjáinn og hvetja sína menn áfram. Anna Kristjánsdóttir er þó ekki enn búin að ákveða með hvoru liðinu hún mun halda.
Í nýjustu dagbókarfærslu sinni skrifar vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir um Grænhöfðaeyjar. Segir hún að það hljóti að vera gott að vera, þar sem meðalhitinn sé fjórum gráðum meiri þar en á Tenerife, þar sem Anna hefur búið síðustu árin.
„Dagur 1982 – Grænhöfðaeyjar.
Ég skil ekki af hverju Íslendingar eru að tala niður til íbúa Grænhöfðaeyja vegna getu þeirra í íþróttum. Ég hefi vissulega aldrei komið þangað, en ég get ekki ímyndað mér annað en að þar sé gott að vera.
Bara svo því sé haldið til haga, þá eru þær á ca14°N eða nokkurn veginn mitt á milli Kanaríeyja og miðbaugs. Fyrir bragðið er ekki eins kalt þar og á Kanaríeyjum, einhver nefndi að þar væri meðalhitinn um fjórum gráðum hærri en á Tenerife sem hlýtur að teljast hreinn lúxus fyrir okkur kuldaskræfurnar sem þolum ekki kulda sem er neðan við 23°C.“
Anna segir einnig að í raun verði átta Íslendingar á vellinum á móti sex.
„Svo eru íbúarnir alveg yndislegir að sögn og sagt að þeir séu hreint afbragð heim að sækja.
Á morgun ætla Íslendingar að vinna þá í handboltakeppni. Það verður auðveldur sigur. Þar ber að nefna að einn Íslendingur er í liði Grænhöfðingja svo það verða eiginlega átta Íslendingar á móti sex Grænhöfðingjum á vellinum í einu, en á móti kemur að Grænhöfðingjar eru vanari hlýjum leikjahöllum en Íslendingar sem búa rétt undir frostmarki stóran hluta ársins.“
Þá kemur Anna með yfirlýsingu sem sjálfsagt mun reita einhverja þjóðernissinna til reiði.
„Ég er enn í vafa með hverjum ég mun halda í leiknum. Þegar haft er í huga að ég held með hetjunum okkar í Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps í fótbolta, en þær spila í fimmtu deild í enska boltanum, er óþarfi að búast við miklum árangri í handboltamótum og eru sumir Íslendingar enn í fýlu út í mig síðan ég veifaði sænska vegabréfinu og sagði, „strákarnir okkar unnu“ þegar Svíar unnu Íslendinga í handboltalandsleikjum í lok síðustu aldar. En þetta var einn af kostum þess að vera með tvöfalt ríkisfang auk þess að vera með í Evrópusambandinu.“
Að lokum segir hún frá því hvað komi í veg fyrir að hún flytji til Grænhöfðaeyja.
„Það er bara einn galli við Grænhöfðaeyjar sem koma í veg fyrir flutning minn þangað. Grænhöfðaeyjar eru ekki í Evrópusambandinu frekar en Ísland og því langar mig ekkert að flytja þangað þótt þar sé ekki eins nístandi kalt og var á Tenerife í nótt.“