Fjölmiðlakonan Þórhildur Ólafsdóttir hefur síðan árið 2023 búið í Úganda ásamt eiginmanni sínum og börnum. Búa þau saman í höfuðborginni Kampala en eiginmaður Þórhildar starfar fyrir utanríkisþjónustu Íslands. Hún mætti í morgun í viðtal á Rás 1 þar sem hún sagði frá ótrúlegum atburði sem átti sér stað verslunarmiðstöð sem hún sækir reglulega. Svo virðist vera að lögreglan í borginni hafi komið í veg fyrir rán. „Það er mikil plága hér í borginni. Svona glæpagengi, sem fara um og ræna fólk út á götu en líka sitja um fyrir fólki sem er að ferðast með peninga. Skipuleggja sig jafnvel þannig að þau vita að fólk er að fara með peninga eða taka út peninga. Virðast komast að einhverjum upplýsingum innan úr viðskiptaheiminum. Það var maður sem var að fara taka út töluverðan pening í bankaútibúinu okkar í gær. Lögreglan hafði komist á snoðir með það að glæpagengi hafi ætlað að ræna hann og komið fyrir einhverjum flugumönnum á víð og dreif þarna inn í verslunarmiðstöðinni og þegar þeir létu til skara skríða þá rauk lögreglan til. Þetta endaði með því að sex voru skotnir til bana.“
Samkvæmt Þórhildi dóu ekki neinir almennir borgarar en að sjónarvottar segi að glæpamennirnir hafi verið skotnir þrátt fyrir að gefast upp. Þá þyki henni atvikið óþægilegt og óhugsandi þó hún sé auðvitað bara útlendingur í Úganda en henni þykir landið skrítið, framandi og hræðilegt í bland.