Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi fordæmir brottvísun á Emmu, þriggja ára stúlku frá Venesúela, sem á að ganga í gegn á morgun.
Í yfirlýsingu frá samtökunum er sagt frá Emmu, en hún er þriggja ára stúlka frá Venesúela sem kom til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd sumarið 2023 ásamt ungum foreldrum sínum.
Skömmu eftir komuna til Íslands greindist Emma með mjaðmaliðhlaup og þurfti að ganga undir flókna skurðaðgerð í febrúar 2024. Eftir þrjár vikur á Emma að fara í aðra aðgerð til þess að fjarlægja plötu úr lærlegg hennar þar sem mjöðmin var opinberuð í síðustu aðgerð.
Þá stendur einnig í yfirlýsingunni eftirfarandi:
„Nú er ljóst að Emma mun ekki geta gengist undir aðgerðina, þar sem vísa á barninu úr landi á morgun, fimmtudaginn 16. janúar. Ítrekuðum beiðnum lögmanns og foreldra stúlkunnar um að að fá frest fram yfir aðgerð hefur verið hafnað þrátt fyrir að læknar séu á einu máli um að verði ekki af aðgerðinni, með þeirri sérfræðiþekkingu og búnaði sem er til hér á landi, geti það haft óafturkræfanlegar afleiðingar á hreyfigetu stúlkunnar í framtíðinni og mikil hætta er á að Emma verði alvarlega fötluð til frambúðar njóti hún ekki viðeigandi eftirfylgni eftir þá aðgerð sem hún gekkst undir hér á landi.“
Segir ennfremur að ljóst sé að heilsu Emmu sé stefnt í hættu verði henni gert að yfirgefa landið á þessum tímapunkti. Hafa foreldrar hennar fullyrt að ómögulegt sé fyrir hana að komast í aðgerð og fá þá nauðsynlegu umönnun sem hún þarf á að halda eftir aðgerðina í Venesúela, þaðan sem þau flúðu af ótta við pólitískar ofsóknir, þar sem þau eru hluti af opinberri stjórnarandstöðu í landinu.
Að lokum skorar stjórn Solaris á félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra að beita sér í málinu og koma í veg fyrir að Emma litla verði send úr landi.
„Í lögum um útlendinga er skýr heimild til þess að fresta brottvísun þar til aðgerðin hefur verið framkvæmd. Stjórn Solaris skorar á félagsmálaráðherra sem og dómsmálaráðherra að beita sér í þessu máli svo vel verði við unað af hálfu lækna stúlkunnar og fresti réttaráhrifum svo hægt verði að ljúka aðgerð með fullnægjandi hætti. Það er með öllu ótækt að brottvísa barni í miðri lífsbreytandi aðgerð þegar læknar hennar fullyrða að slíkt rof á meðferð muni hafa óafturkræfanlegar afleiðingar fyrir hreyfigetu hennar til framtíðar.“