Vikulega tekur ritstjórn Mannlífs saman hverjir hafi átt góða og slæma viku. Það er mál manna að Sigmundur Davíð sloppið vel í liðinni viku meðan Flugvallarvinir slógu vopn sín eigin höndum.
Góð vika – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Það hefur verið völlur á formanni Miðflokksins undanfarið. Framtíðarsýn Miðflokksins hefur birst á síðum Moggans þar sem grautað er saman andstöðu gegn þriðja orkupakkanum, efasemdum um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum og varhug gagnvart flóttamönnum. Sigmundur Davíð þekkir sinn basa, sem mest megnis samanstendur af eldri körlum, og hefur hann verið að tæta í sig fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Til að toppa góða viku fékk hann ekki skömm í hattinn frá siðanefnd Alþingis í Klaustursmálinu. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hann var að hlæja með þeim sem brutu siðareglurnar, ekki að þeim sem ummælin beindust að.
Slæm vika – Flugvallarvinir
Þeir sem tilheyra hópi flugvallarvina, hópi þeirra sem standa grimman vörð um Reykjavíkurflugvöll, slógu vopn sín úr eigin höndum í vikunni. Ein helstu rök í þeirra málflutningi hafa snúið að mikilvægi þess að hafa flugvöllinn í nánd við Landspítalann þar sem hver sekúnda skiptir máli í sjúkraflugi. Forsvarsmenn Mýflugs voru þar fremstir í flokki ásamt fleirum. Í vikunni var svo greint frá því að meðvitundarlaus Þjóðverji var látinn bíða í tvo tíma á meðan grafist var fyrir um hvort sjúklingurinn væri með gildar sjúkratryggingar. Var það gert að kröfu Mýflugs sem vildi ekki taka á loft fyrr en gengið var úr skugga um að svo væri.