Óánægðir starfsmenn Sýnar þrýsta á stjórn og hluthafa að bregðast við því sem þeir kalla ófremdarástand í fyrirtækinu. „Þetta er alveg svakalega alvarlegt,“ segir einn heimildarmanna Mannlífs um stöðuna. Hann vill ekki láta nafns síns getið af ótta við að verða refsað.
Mikil óánægja er innan fyrirtækisins og hafa lykilmenn úr hópi stjórnenda sagt upp störfum og eru á förum eða farnir. Herdís Fjeldsted forstjóri er sökuð um að hafa enga stjórn á málum og ráða inn fólk sem henni er handgengið eða tengt. Lagt er að ráðandi öflum í Sýn að skipta um forstjóra og koma böndum á ástandið. Í tíð Herdísar hefur hlutabréfaverð fallið um hátt í 40 prósent og er markaðsvirði félagsins talið vera um þriðjungur af því verði sem fengist ef fyrirtækið yrði leyst upp.
Herdís hefur ekki svarað skriflegum spurningum eða símtölum Mannlífs um ástandið innan félagsins og möguleg viðbrögð. Hún sendi starfsmönnjum aftur á móti tölvupóst þar sem hún segir að rangfærslur hafi verið í umfjöllun Mannlífs í síðustu viku. Þar er vísað til þess að Mannlíf sagði frá því að til skoðunar væri að samræma vörumerki fjölmiðla félagsins undir nafninu Sýn. Herdís tilgreinir sérstaklega að útvarpsstöðvarnar muni ekki breyta um nafn en staðfestir að vörumerkin séu til skoðunar. Þá segir hún að ekki hafi verið í sinni tíð rætt að loka fréttastofu Stöðvar 2.
Ágreiningurinn í eigendahópi Stöðvar 2 lýsir sér helst í því að ráðandi meirihluti hefur fylgt þeirri stefnu að halda félaginu sameinuðu og efla innviðina samtímis því að skorið hefur verið niður í starfsmannahaldi. Minnihlutaeigendur vilja aftur á móti selja að mestu fjölmiðlahlutann en halda eftir fjarskiptahlutanumn, Vodafone. Snúa mætti við dæminu með því og þrefalda virði félagsins. Síminn hefur verið á fremsta hlunni með að kaupa útvarpsstöðvarnar og Vísi. Sömu hugmyndir ganga út á að loka fréttastofu Stöðvar 2 og efla þann hluta sem snýr að afþreyingu.
Óljóst er hvað verður ofan á en víst þykir að á næstunni sé stórra tíðinda að vænta innan úr Sýn. Heimildarmenn Mannlífs herma að uppsagnir muni halda áfram og fólksflóttinn eigi eftir að ná hámarki.