Tölvuleikjaunnendur hoppa hæð sína af kæti en ástæðan er sú að tölvufyrirtækið Nintendo kynnti fyrr í dag leiktölvuna Nintendo Switch 2 og eins og nafnið gefur til kynna er hún næsta kynslóð af Nintendo Switch sem kom fyrst út árið 2017. Varð hún fljótt ein af vinsælustu leikjatölvum allra tíma.
Stærsta breytingin virðist vera stærri skjár en einnig er hægt að tengja tölvuna við sjónvarp og spila leikina á þann máta. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs mun tölvan geta spilað einhverja af leikjunum sem komu út á Nintendo Switch. Ekki liggur ennþá fyrir hvað tölvan mun kosta eða nákvæmlega hvenær hún kemur út á þessu ári en frekari upplýsingar verða gefnar út í apríl.