Nýting á fangageymslum lögreglunnar tók stökk frá fyrri nótt þegar þær stóðu tómar. Að þessu sinni gistu þrír hjá lögreglunni. Fíkniefnamál og brot ökumanna settu lit á gærkvöldið og nóttina.
Þegar lögreglumenn höfðu afskipti af manni sem grunaður var um sölu og dreifingu fíkniefna reyndi hann að flýja lögreglu á fæti. Flóttinn gekk ekki upp og hann var handsamaður skömmu síðar. Flóttamaðurinn reyndist vera með fíkniefni meðferðis ásamt talsverðu magni fjármuna. Fíkniefnasalinn var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Lögregla kölluð til vegna þjófnaðar í verslun. Málið var leyst á vettvangi.
Fjórir ökumenn stöðvaðir í akstri grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða áfengis. Þeir voru allir látnir lausir eftir aðgerðir lögreglu en sumir þeirra voru einnig grunaðir um akstur án ökuréttinda og/eða vörslu fíkniefna og fleira.
Tilkynnt um brotna rúðu í bifreið. Málið er í rannsókn.
Þrír ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur en sá sem ók hraðast var á 146 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund.
Kópavogslögregla hafði afskipti af sex ökumönnum vegna umferðarlagabrota. Til dæmis voru ökumenn sektaðir fyrir of hraðan akstur, farsímanotkun og akstur gegn rauðu ljósi.