Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Hátt í tuttugu bæjar- og útihátíðir um allt land í dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verslunarmannahelgin, stærsta árlega ferðahelgi landans, er gengin í garð. Hátt í tuttugu bæjar- og útihátíðir eru nú í fullu fjöri um allt land. Hátíðarhöld eru ekkert síðri í Reykjavík á Innipúkanum en flestir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

Innipúkinn heldur áfram í dag og kvöld á Granda. Hinn árlegi útifatamarkaður verður haldinn í dag á bryggjunni við hátíðarstaðina Bryggjan Brugghús og Messinn Granda. Markaðurinn er opinn öllum og verður ýmislegt í boði fyrir alla aldurshópa. Dagskrárliðurinn er því tilvalinn fyrir fjölskyldufólk. Í kvöld verða svo fjölbreytt tónlistaratriði á svæðinu sem skarta meðal annars Friðrik Dór, GDRN og Hildi. Nánar um dagskrána má sjá hér. Hægt er að kaupa miða á stakt kvöld en 20 ára aldurstakmark er á viðburðinn. Armböndin er svo hægt að nálgast á hátíðarsvæðinu frá kl 16:00 í dag.

Fyrri hluti útihátíðarinnar á skemmtistaðnum SPOT í Kópavogi fer fram í kvöld. Greifarnir og Siggi Hlö skipta með sér kvöldunum. Miðasalan opnar kl 22:00 en einnig er hægt að tryggja sér miða á Tix.is, á stakt kvöld eða bæði kvöldin. Brekkusöngur SPOT fer svo fram sunnudagskvöld og verður hann opinn öllum.

Þeir sem hyggjast ferðast út fyrir bæjarmörkin í dag þurfa ekki að leita langt yfir skammt að helstu dagskrárliðum landsvæðanna. Hér eru allir laugardagsviðburðir eftir landshlutum:

Fjölskylduvæn dagskrá á Vesturlandi

Mynd: palloskar.is

Helgardagskrá Hraunborgar í Grímsnesi heldur áfram. Eins og alla daga helgarinnar verður boðið upp á sundlaugarpartý fyrir krakkana síðdegis. Þá verður sveitamarkaður á tjaldsvæðinu, reipitog, minigolfkeppni og margt fleira fram eftir degi. Nánari upplýsingar má nálgast hér. 

Dagskrá Sæludaga í Vatnaskógi er þéttsetin en hátíðin er vímulaus. Fræðslur, fjölskyldubingó, Wipe-out braut og kraftakeppni eru meðal dagskrárliða. Þá mun Páll Óskar troða upp í íþróttahúsinu í kvöld. Allar frekari upplýsingar ásamt miðasölu má nálgast hér.

- Auglýsing -

Harmonikuhátíð FHUR í Grímsnesi er enn í fullu fjöri. Sérstakir gestir hátíðarinnar munu halda uppi fjörinu í dag, þær Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristine Farstad Björdal. Tónleikar þeirra fara fram í félagsheimilinu á Borg. Eftir tónleikana verður samspil á svæðinu, markaður og harmonikusölusýning EG tóna í íþróttahúsinu. Um kvöldið verður dansleikur á félagsheimilinu, þar sem Ásta Soffía og Kristine munu halda uppi stuðinu.

Hin árlega fjölskylduhátíð við flugvöllinn í Múlakoti heldur áfram. Krakkaleikar, flugkeppni, brenna og kvöldvaka eru meðal dagskrárliða. Nánari upplýsingar má nálgast hér.  

Mýrarbolti, Kjötsúpuhátíð og Gönguhátíð á Vestfjörðum

- Auglýsing -
Mynd: Myrarbolti.com

Í hádeginu fer fram Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta á Bolungarvík. Leikmenn og áhorfendur geta hitað sig upp í bjór jóga sem hefst 11:30. Eftir mótið sjálft verður hægt að skola af sér drulluna í sundlaugarpartýi og slaka á fyrir tónleika kvöldsins. Meðal listamanna sem koma fram eru Flóni, Anton Líni og Þórdís Erla.

Kjötsúpuhátíðin á Hesteyri fer fram í dag en þrjár siglingar frá Bolungarvík eru í boði yfir daginn. Eftir kjötsúpuna verður boðið upp á kaffi og nýbakaðar pönnukökur. Þá verður skemmtileg dagskrá fram eftir degi sem hentar öllum aldurshópum. Um kvöldið verður gengið í fjöru þar sem tendraður verður varðeldur og sungið yfir hafið. 

Gönguhátíðin í Súðavík heldur áfram og hófst dagskráin í morgun með hafrargraut, lifrarpylsu og lýsisskammti. Tvær leiðir voru í boði og hófust þær báðar kl: 09:00. Þá verður síðdegisganga um þorpið í boði með leiðsögumanni en nánari upplýsingar má finna hér. Sameiginlegt grill verður um kvöldið í Raggagarði. Á svæðinu er fjölbreytt leiksvæði fyrir yngri hátíðargesti. Fjörugt ball verður í framhaldi og ókeypis er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Aðrir gestir geta keypt sér miða við dyrnar.

Norðurland: Síldarævintýri, Ein með öllu og Norðarpaunk

Mynd: einmedollu.is

Lifandi tónlist, prjónakaffi, fornbílasýning og Bjórleikarnir eru eitt af fjölmörgum dagskrárliðum í boði á Síldarævintýri á Siglufirði í dag. Allar tímasetningar og nánari upplýsingar má nálgast á Facebook síðu hátíðarinnar. Þá verður Bryggjusöngurinn á sýnum stað við smábátahöfnina í kvöld. Að því loknu mun Herra Hnetusmjör og DJ Egill Spegill troða upp á Kaffi Rauðku.

Á Akureyri fer fram hátíðin Ein með öllu. Allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi en yfir daginn verða tónleikar, markaður, Einar Mikael töframaður og margt fleira í boði. Hátíðardagskrá miðbæjarins er þétt setin og er Svala Björgvins, Omotrack og Soffía Ósk meðal listamanna. Helgardagskrána má finna hér. 

Tónlistarhátíðin Norðanpaunk er hafin á Laugarbakka í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar munu 50 hljómsveitir koma fram. Meðal þeirra eru Nornahetta, Mass Kælan Mikla og Korter í flog. Hátíðin er fyrir alla aldurshópa en mælt er með eyrnahlífum fyrir yngstu kynslóðina. 

Austurland: Neistaflug og Unglingalandsmót UMFÍ

Mynd úr safni

Neistaflug á Neskaupstað er hátíð fyrir alla fjölskylduna. Árlega Barðsneshlaupið hófst í morgun en af nógu er að taka fram eftir degi. Leikhópurinn Lotta, útimarkaður, sápubolti og margt fleira er að finna í dagskránni í dag. Partýbingó og tónleikar fara svo fram í kvöld þar sem Einar Ágúst, Matti Matt og Papar munu sjá um skemmtanahald. Nánari upplýsingar um miðaverð og dagskrá má sjá hér. 

Unglingalandsmót UMFÍ heldur áfram í dag í Höfn í Hornafirði. Ásamt fjölmörgum keppnisgreinum sem er hægt að fylgjast með er boðið upp á gönguferð með leiðsögn í dag, Leikjatorg fyrir yngri áhorfendur, sundlaugapartý og margt fleira. Daglega kvöldvakan heldur áfram en Bríet og Daði Freyr munu halda utan um skemmtun kvöldsins. 

Suðurland: Þjóðhátíð í Eyjum og Flúðir um Versló

Dagskrá Þjóðhátíðar í Eyjum hófst í gær en af nógu er að taka um helgina. Meðal tónlistarmanna sem halda uppi stuðinu í kvöld er Jón Jónsson, Friðrik Dór og FM95Blö. Á miðnætti fer svo fram flugeldasýningin en DJ Muscleboy mun svo halda uppi stuðinu frameftir nóttu. Upplýsingar um dagskrá og miðakaup má nálgast hér.

Traktoratorfæran í Torfdal fer fram í dag á hátíðinni Flúðir um Versló. Barna- og fjölskylduskemmtanir halda svo áfram í Lækjargarði í dag. Um kvöldið mun Eyþór Ingi taka alla bestu rokkslagara áttunda áratugarins á félagsheimilinu. Fyrir nánari upplýsingar er bent á Facebook síðu hátíðarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -