Á miðvikudagskvöld handtók lögreglan á Austurlandi tvo einstaklinga á fertugsaldri, grunaða um fíkniefnamisferli en þeir eru taldir hafa framleitt kannabis.
Kemur fram í tilkynningu lögreglu að ráðist hafi verið í húsleit að fengnum dómsúrskurði en þar hafi komið í ljós búnaður til kannabisframleiðslu auk nokkurs magns plantna í ræktun. Þá fundust fleiri ólögleg fíkniefni einnig í húsinu.
Samkvæmt Austurfrétt lauk yfirheyrslum yfir þeim handteknu í gærkvöldi og var þeim sleppt að þeim loknum. Málið er enn í rannsókn en það lýtur meðal annars að framleiðslu fíkniefna og dreifingu.