Þrettán ára stúlka hljóp undan karlmanni í Laugardalnum í gærkvöldi en maðurinn hefur ekki enn fundist.
Kona nokkur sagði frá því í íbúðahópi Langholtshverfis á Facebook í gær að þrettán ára dóttir hennar hafi verið á leið heim til sín eftir íþróttaæfingu um klukkan 18:00. Hún hafi verið að ganga í átt að Áskirkju, nærri Grasagarðinum þegar hún heyrði karlmann sem faldi sig bakvið tré segja „komdu“. „Hún öskraði á hann og hljóp í átt að Laugarásvegi og hann á eftir henni,“ skrifaði móðirin.
Segir hún að fólk í hlaupahópi hafi stoppað til að hjálpa dóttur hennar og að þau hafi leitað að manninum en hann hafði þá falið sig einhversstaðar utan göngustígsins. Stúlkan hljóp síðan í ofvæni heim án þess að líta til baka. Samkvæmt stúlkunni var maðurinn mjög hávaxinn og sterkbyggður og með lága rödd. Hann hafi verið klæddur í svarta eða dökka úlpu eða hettupeysu með hettuna uppi en hún hafi ekki séð mikil smáatriði í myrkrinu.
„Vildi bara láta þig vita svo við getum fylgst með þessu og haldið börnum okkar öruggum,“ skrifaði móðirin að lokum.
Mannlíf heyrði í Unnari Má Ástþórssyni, aðalvarðstjóra lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu og spurði hann út í málið. Staðfesti hann um að lögreglan hafi brugðist skjótt við tilkynningunni en að maðurinn hafi ekki fundist. Næstu skref sé að athuga hvort öryggismyndavélar hafi verið á svæðinu en telur hann ólíklegt að svo sé.