Eftir nóttina gista sex einstaklingar í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en alls voru 87 mál bókuð í kerfum lögreglunnar frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Hér koma nokkur dæmi.
Dyraverðir skemmtistaðar í miðborg Reykjavíkur kölluðu til lögreglu en þeir héldu eftir manni eftir átök. Kom í ljós að maðurinn hafði látið ófriðlega og virtist hafa verið upphafsmaður slagsmálanna. Var hann því vistaður í fangaklefa þar til hann verður í ástandi til að vera meðal almennings.
Eldur kviknaði í ruslagámi og mátti litlu muna að hann breiddist út, slíkur var eldurinn, samkvæmt lögreglumönnum sem mættu fyrstir á vettvang. Var slökkviliðið kallað til sem slökkti eldinn.
Ökumaður reyndi að komast undan lögreglunni þegar hún ætlaði að hafa afskipti af honum. Var ökufanturinn króaður af eftir eftirför um miðbæ Reykjavíkur. Reyndi hann þá að hlaupa frá lögreglunni en mistókst ætlunarverk sitt. Þá reyndi farþegi bifreiðarinnar einnig að hlaupa á brott en var hlaupinn uppi af laganna vörðum. Voru þeir báðir vistaðir í þágu rannsóknar en báðir reyndust þeir undir drukknir.
Lögreglan sem annast Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes barst tilkynning um yfirstandandi innbrot þar sem nokkrir aðilar voru að reyna að komast inn í gám. Var rætt við aðilana á vettvangi en þeir gátu að einhverju leyti gefið eðlilegar skýringar á málinu.
Glanni var sektaður fyrir of hraðan akstur en hann ók á 140 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.
Lögreglan sem sér um Breiðholtið og Kópavog stöðvaði tvo ökumenn sem ýmist voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Voru þeir báðir lausir eftir hefðbundið ferli.
Þá var lögregla kölluð til vegna ágreinings um bifreiðarkaup en þar hafði komið upp ósætti með ástand bifreiðarinnar. Var eiganda og fyrrum eigana leiðbeint um næstu skref.
Lögreglan sem þjónustar Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ var kölluð til vegna reiðhjólaslyss en sem betur fer voru meiðslin minniháttar.
Tveir aðilar réðust á einn við bensínstöð en þegar gerendurnir ætluðu sér að yfirgefa vettvanginn á bifreið tókst ekki betur til en að þeir bökkuðu á aðra bifreið áður en þeir brunuðu á brott. Málið er í rannsókn.