Nú styttist óðum í Eurovision en áður þangað er haldið þarf að halda undankeppni til að skera úr hver verður fulltrúi Íslands í Sviss í maí.
Tíu flytjendur koma til greina þetta árið:
BIRGO með lagið Ég flýg í storminn / Stormchaser
Ágúst með lagið Eins og þú / Like You
Stebbi JAK með lagið Frelsið Mitt / Set Me Free
BIA með lagið Norðurljós / Northern Lights
VÆB með lagið RÓA
Bjarni Arason með lagið Aðeins lengur
Dagur Sig með lagið Flugdrekar / Carousel
Tinna með lagið Þrá / Words
Bára Katrín með lagið Rísum upp / Rise Above
Júlí og Dísa með lagið Eldur / Fire
Hafa verið fleiri
Undanfarin ár hefur RÚV sett sig í samband við höfunda sem hefðu annars ekki tekið þátt í Söngvakeppninni og fengið þá til að semja lög fyrir hana og var það einnig gert í ár og eru þeir þrír talsins í ár samkvæmt Rúnari Frey Gíslasyni, verkefnastjóra RÚV.
„RÚV hefur í gegnum árin leitað til ákveðinna höfunda, sem ekki höfðu hugsað sér að sækja um í keppnina,“ sagði Rúnar við Mannlíf um málið. „Þetta hafa verið 3-5 höfundar á hverju ári sl. ár og reynsla okkar af þessu fyrirkomulagi hefur verið góð. Í ár var leitað til þriggja höfunda um að vera með,“ en Rúnar vildi ekki segja hvaða höfundar RÚV hafi samið við eða hversu mikið þeir myndu fá greitt. Slíkt yrði þó gert eftir að keppni lýkur.
Fá ráðgjöf fagmanna
„110 lög voru send inn í ár og er það svipað og í fyrra,“ sagði Rúnar um hversu mörg lög voru send inn í keppnina. „Á bakvið hvert lag eru svo oft margir aðilar, lagahöfundar og textahöfundar. Við erum ótrúlega ánægð með þann áhuga sem íslenskir höfundar sýna keppninni á hverju ári, enda hefur það sýnt sig að keppnin er stór gluggi fyrir þá sem vilja koma tónlist sinni á framfæri, hérlendis og erlendis.“
En hverjir velja lögin sem komast í Söngvakeppnina?
„RÚV myndar fagnefnd á hverju ári til að hlusta á öll innsend lög og hana skipar jafnan fagfólk á sviði tónlistar á Íslandi. Í ár voru tveir fulltrúar í nefndinni frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og þrír tilnefndir af RÚV, samtals fimm einstaklingar. Nefndin er hins vegar aðeins ráðgefandi, það er dagskrárdeild RÚV sjónvarps sem velur endanleg lög í keppnina. Þar er í mörg horn að líta, við horfum t.d. til kynja- og fjölbreytnissjónarmiða, tegund tónlistarinnar o.s.frv. Söngvakeppnin hefur í gegnum tíðina fagnað fjölbreytileikanum í hvívetna og mun vonandi gera áfram.“