Þátttaka í kínverska innviða- og fjárfestingaverkefninu Belti og braut stendur Íslandi til boða. Þátttaka gæti aukið aðgengi að innviðafjárfestingu og skapað ýmis viðskiptatækifæri fyrir landið. Belti og braut er þó afar umdeilt vegna ásakana um að kínversk stjórnvöld nýti sér verkefnið í herstjórnarlegum tilgangi og varpi þátttökuríkjum þess í skuldagildru.
Innviða- og fjárvestingaverkefnið Belti og braut (Belt and Road Initiative) er verkefni sem einkennt hefur utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forseta landsins, Xi Jinping. Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og vill Xi Jinping endurvekja hana undir formerkjum Beltis og brautar. Belti og braut – eða Silkileið 21. aldarinnar – skiptist í stuttu máli í svokallaðan silkiveg eða „belti“ á landi, til dæmis í formi lestarteina og hraðbrauta. Hinn hlutinn er silkileið á sjó eða „braut“ – til dæmis í formi hafna sem þar að auki tengir Kína við umheiminn.
Verkefnið er afar víðfeðmt og nær frá Kína til Evrópu og Austur-Afríku, auk þess sem það nær til fjölmargra Asíuríkja. Að minnsta kosti 68 ríki hafa skrifað undir þátttöku í verkefninu og saman mynda ríkin um 40 prósent landsframleiðslu heimsins.
Margir hafa þó gagnrýnt verkefnið og telja sumir að kínversk stjórnvöld vilji nota það til þess að auka stjórnmálaleg áhrif sín í heiminum. Bandaríkin eru eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og utanríkisráðherra, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru.
Hægt er að lesa fréttaskýringuna í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.