Sagnfræðingurinn og varaborgarfulltrúinn Stefán Pálsson segir að borgarstjórn Reykjavíkur sé við það að samþykkja aðgerðaráætlun í málefnum heimilislausra. Segir hann borgina vera í milli skuld við málaflokkinn en að gangi áætlunin eftir verði staðan miklu betri í náinni framtíð.
„Í borgarstjórn erum við nú að fara að samþykkja aðgerðaáætlun ásamt stefnu í málefnum heimilislausra. Þetta er góð vinna sem hefur verið unnin í góðri sátt. Borgin er í mikilli skuld í þessum málaflokki, þótt málum hafi verið þokað fram á við á síðustu árum. Ef þessi áætlun nær fram að ganga verður staðan mun betri í náinni framtíð. Því ber að fagna.“
Í seinni hluta færslunnar sem Stefán skrifaði á Facebook talar hann um Konukot og hversu mikilvægt sé að koma þeirri starfsemi í nýtt húsnæði. Sjálfur er Stefán nágranni Konukots og segir þá íbúa sem hafi áhyggjur af því að starfsemi flytji í næsta nágrenni við þá, að ekkert sé að óttast, sé haldið rétt á spilunum.