Landeigendur í Reykjahlíð í Skútustaðahreppi hafa óskað eftir lokun svæða við Hveri, Leirhnjúk og víti við Kröflu vegna álags af völdum ferðamanna.
Umhverfisstofnun hefur beiðni langdeigenda til skoðunar en stofnunin synjaði sambærilegri ósk í fyrra. Á vef Umhverfisstofnunar segir að óskað verði efir umsögnum og samráði varðandi takmörkun og hafa hlutaðeigandi frest til morguns til að svara.
Stofnunin hefur þegar gert úttekt á svæðunum og liggur fyrir að álag er mikið og innviðir hafa látið á sjá. Er það mat landvarða að hægt sé að bregðast við með aðgerðum.
Umhverfisstofnun hefur heimild til að takmarka aðgang að eða loka svæði tímabundið fyrir ferðamönnum og skal samráð haft við sveitarfélög og/eða landeigendur, fulltrúa ferðaþjónustu og útisvistarfólks. Takmörkunin eða lokunin skal ekki standa lengur en í tvær vikur en heimilt er að framlengja hana ef nauðsyn krefur, þá að fenginni staðfestingu ráðherra.