Reinhold Richter gaf út lagið Heim til vina á dögunum en það samdi hann til heiðurs vinar síns, Ísaks Harðarsonar ljóðskálds, sem lést árið 2023. Segist hann í samtali við Mannlíf vona að lagið verði „one hit wonder“ eða einsmellungur eins og það kallast á íslensku.
Aðspurður um viðbrögðin við laginu segir Reinhold þau hafa verið frábær:
„Ég fæ alveg rosalega góð viðbrögð, maður er bara hissa. Ég er búinn að fá svo flott comment í einkaskilaboðum frá fólki sem er mér kunnugt en ekki tengt þannig. Maður verður bara klökkur.“
Reinhold segist hafa verið að kynna lagið sem einhverskonar minningarlag en það fjalli jafn mikið um vináttuna og vonina:
„Ég hef verið að kynna lagið sem svona minningarlag en þetta var tilbúið í nóvember en þá setti ég það ofan í skúffu. Svo hef ég verið að hlusta á það núna og finnst þetta meira svona lag um vináttu, von og framtíðina. Og ekki veitir af á þessum tímum þar sem allt er einhvernveginn svart.“
Lagið samdi Reinhold til heiðurs ljóðskáldsins Ísaks Harðarsonar sem lést árið 2023 en þeir voru góðir vinir.
„Við vorum mjög góðir vinir. Ég samdi þetta lag uppi í sumarbústað. Við áttum góðar stundir þar en hann vildi nú yfirleitt ekki gista en kom við og við vorum að fara í svona bíltúra saman. Og þegar hann dó gerði ég mér grein fyrir því hversu mikið ég hafði misst og fór í sjálfsvorkun og þannig kviknaði þetta. Og svo vildi ég bara heiðra minningu hans,“ sagði Reinhold og bætti við hlæjandi: „Ég var svo ruglaður fyrst að ég ætlaði að semja ljóð en sá svo að það stóðst náttúrulega engan samanburð við það sem hann [Ísak] var að skrifa.“ Þannig að úr varð lagið sem nú hefur verið gefið út.
„One hit wonder“
En er Reinhold reynslumikill tónlistarmaður?
„Nei, bara ekki sko. Ég hef bara gutlað einn á gítar og aldrei sungið eða spilað með öðrum. Og ég hef pikkað gripin upp sjálfur og ég næ alveg að setja saman hljóma og hef búið til fullt af litlum lögum. En ég er ekki mikill tónlistarmaður sem slíkur.“
Aðspurður hvort hann ætli sér að gefa út fleiri lög svarar Reinhold hlæjandi: „Nei, ég er að vona að ég verði svona one hit wonder!“
Reinhold segir að það hafi tekið hann um tvö ár að semja lagið. „Ísak deyr í maí 2023 og þetta hefur sennilega verið í júlí, sem ég byrjaði. Og svo leiddi eitt af öðru og ég keypti svona utanáliggjandi hljóðkort til að geta spilað inn á tölvuna og fékk með því forrit til að taka upp og fór að leika mér. Ég er búinn að læra meira á tónlist á seinustu tveimur árum en á allri ævinni. Það er gaman að þessu, svona á gamalsaldri.“
Hér má sjá myndband við lag Reinholds: