Björn Þorláksson hefur sagt sig úr Flokki fólksins.
Blaðamaðurinn, rithöfundurinn og fyrrum varaþingmaðurinn Björn Þorláksson hefur tekið þá ákvörðun að velja blaðamennsku ofar stjórnmálunum og því sagt sig úr Flokki fólksins.
„Blaðamennskan öðru ofar – Úrsögn úr Flokki fólksins
Helsta ástríða mín hefur alltaf verið að þjóna almenningi með beittri blaðamennsku. Enda hef ég fengið tækifæri til þess í marga áratugi og þykir vænt um ævistarfið.
Og því er ekki lokið.“ Þetta skrifaði Björn á Facebook í dag en í færslunni, sem er í lengri kantinum útskýrir hann ástæðuna fyrir því að hann hefur nú tilkynnt Ingu Sæland að hann sé hættur í Flokki fólksins. Segir hann að í upphafi síðasta árs hafi honum verið treyst fyrir dagskrárvaldi í sjónvarpi hjá Samstöðunni og að hann hafi átt í góðu sambandi notendur Samstöðvarinnar.
„En á síðasta ári varð ég líka við ósk Ingu Sæland og fleiri sem skoruðu á mig þegar falast var eftir að ég færi í framboð. Það var rökstutt með því að í blaðamennskunni hefði ég oft hugað að þörfum þeirra sem standa höllum fæti. Í stuttri og snarpri kosningabaráttu kom ég margoft fram fyrir Flokk fólksins í kappræðum, stundum í beinum útsendingum og var sýnt mikið traust. Ég varð varaþingmaður og útkoman í kosningunum varð glæsileg fyrir Flokk fólksins.“
Segist Björn nú hafa hugsað málin vel undanfarið og komist að þeirri niðurstöðu að „blaðamennskan og almenningur eigi betra skilið en að ég beri tvo hatta“ og bætir við: „Blaðamennskan snýst um traust. Og það er höggstaður á trausti milli almennings og fjölmiðlamanns sem tengist Flokki fólksins.“ Segist hann því hafa ákveðið að velja blaðamennskuna framyfir stjórnmálin. „Í dag sagði ég mig svo úr Flokki fólksins og mun framvegis standa utan allra flokka. Eins og blaðamenn eiga að gera.“
Segir hann ennfremur að ákvörðunin snúist að einhverju leyti um það sem keyrir hann áfram og að „blaðamennskunni hér á landi veitir ekki af óbjöguðum kröftum þeirra sem bera sæmilegt skynbragð á blaðamennsku“ og að nóg sé til af stjórnmálafólki en „við þurfum fleiri reynda og sjálfstæða blaðamenn, sem óhræddir rugga bátum og veita valdinu mesta aðhaldið þar sem það er þykkast, burtséð frá því hvaða flokkar sem stjórna hverju sinni.“
Björn segist þess vegna hafa skrifað bækurnar Mannorðsmorðingjar? og Besti vinur aðal. „Sem langflestir fjölmiðlar hér á landi hafa kosið að fjalla ekki um – sem sýnir áskorun sem við búum við í samfélaginu er kemur að gagnrýnendum.“
Á öðrum stað í yfirlýsingunni biður Björn kjósendur sína afsökunar á ákvörðun sinni að hætta varaþingmennsku.
„Ef einhver ykkar kusuð mig sem þingmannsefni Flokks fólksins og ef þið hefðuð ekki kosið flokkinn annars og teljið ykkur svikin að lesa þessa yfirlýsingu, þykir mér það leitt og ég biðst afsökunar sem fráfarandi varaþingmaður. Ég trúi því þó að snúningurinn verði samfélaginu til hagsbóta ef það gæti reynst ykkur einhver sárabót.“
Að lokum segir hann:
„Fjórða valdið er almenningi gagnlegast þegar það aðgreinist að fullu frá þremur stoðum ríkisvaldsins og öllu pólitísku valdi.
Ég mun gera mitt besta til að sinna blaðamennsku með sóma og í þágu almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. En Ingu Sæland og félögum þakka ég samveruna með gleði í hjarta fyrir dýrmæta og mannbætandi reynslu.“