Almennum byggðakvóta hefur verið úthlutað til 42 byggðarlaga í 25 sveitarfélögum á fiskveiðiárinu 2024-2025 en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
„Atvinnuvegaráðherra er heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstaka tegunda. Heildarráðstöfun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu nemur alls 3.807 þorskígildistonnum. Heildarúthlutun kvóta dregst saman um 1.022 þorskígildistonn milli ára og verða breytingar á magni úthlutaðra þorskígildistonna til einstakra byggðarlaga í samræmi við það,“ segir í tilkynningunni.
Þá er heildarúthlutun byggðakvóta til byggðarlaga er samkvæmt ráðstöfun sem tilgreind er í reglugerð.nr. 817/2024, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025 en úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025 byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 818/2024, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga.
„Byggðalög með færri en 400 íbúa fá 2.259 þorskígildistonnum úthlutað og byggðarlög með fleiri en 400 íbúa fá úthlutað 1.548 þorskígildistonnum. Alls fá ellefu byggðalög lágmarksúthlutun upp á 15 þorskígildistonn og þrjú byggðalög fá hámarksúthlutun 285 þorskígildistonna.“
Úthlutun almenns byggðakvóta fiskveiðiársins 2024-2025 er eftir landshlutum:
- Austurland – 435 tonn
- Norðurland eystra – 1.064 tonn
- Norðurland vestra – 345 tonn
- Suðurland – 30 tonn
- Suðurnes – 145 tonn
- Vestfirðir – 1.593 tonn
- Vesturland – 195 tonn
Samtals: 3.807 tonn