Eigendur rúmlega 60 eigna í Grindavík eru ósáttir við íslenska ríkið og stefna sumir hverjir að málaferlum til að fá úrlausn sinna mála. Þeir hafa leitað til lögmanns um að sækja málin.
Fasteignafélagið Þórkatla hefur gengið frá kaupum á hartnær þúsund fasteignum í Grindavík. Ríkisútvarpið segir að því fari fjarri að allir bæjarbúar hafi fengið úrlausn sinna mála. Eigendur á sjötta tug fasteigna hafa leitað til lögmanns og enn eru á fjórða tug mála útistandandi. Útlit er fyrir að mörg þeirra endi fyrir dómi. Nokkur þessar amál beinast að Þórkötlu sem hefur hafnað uppkaupum á sumum eignanna.
„Það var bætt við inn í lögin að fallist væri á uppkaup ef þau eru vegna aðstoðar við náinn fjölskyldumeðlim. Svo er svona túlkunaratriði núna hvað er náinn fjölskyldumeðlimur. Þannig að það eru alls konar túlkunaratriði þar,“ hefur RÚV eftir Telmu Sif Reynisdóttur lögmanni.
Einnig er deilt um kaupverð eignanna. Þórkatla hefur keypt eignir á sem nemur 95 prósent af brunabótamati. Dæmi eru um að félagið hafi látið endurákvarða brunabótamat eftir að eigendur afhentu þeim eignina. Telma nefnir Grindvíkinga sem sömdu við Þórkötlu um kaup á eigninni og afhentu félaginu.
„Löngu eftir afhendingu eignarinnar fá þau bréf þess efnis að kaupverðið hafi verið endurákveðið, afsalsgreiðslan verði ekki innt af hendi og þeim sé gert að greiða til baka hluta af kaupverðinu,“ segir hún.
Margir ósáttir við matið og telja það alltof lágt. Telma tekur dæmi af eign á Víkurbraut, sem liggur á annarri af stóru sprungunum og hefur verið girt af þar sem tjónamatið hljóðar upp á 470 þúsund krónur.
Sumir hafa gripið til þess ráðs að fá sitt eigið mat á tjóninu.
„Umbjóðendur okkar hafa alveg komist þannig að orðiað það sé eins og að vera á skurðborði og það standa læknar yfir þér og rífast um það hver er ábyrgur læknir. Það virðist enginn ætla að bera ábyrgð,“ segir Telma.