Sindri Þór Sigríðarson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Tjarnarbíós er grunaður um að hafa dregið að sér að minnsta kosti 13 milljónir frá Tjarnarbíói frá lokum árs 2021.
„Því miður get ég staðfest þær fréttir um að fyrrum framkvæmdastjóri Tjarnarbíós sé grunaður um fjárdrátt. Um er að ræða langt tímabil, eða allt frá lok árs 2021 þegar Sindri fékk aðgang að sjóðum Tjarnarbíós þar til ég uppgötvaði misfellur í bókhaldi Tjarnarbíós í byrjun árs.“ Þetta segir Snæbjörn Brynjarsson leikhússtjóri Tjarnarbíós í færslu sem hann birti á Facebook rétt í þessu. Segir hann það hafa verið mikið áfall fyrir starfsfólk Tjarnarbíós að heyra af grunsemdum Snæbjörns.
„Það var mikið áfall fyrir starfsfólk Tjarnarbíós, stjórn, listafólk og aðra velunnara þegar ég lýsti fyrir þeim mínum grunsemdum. Það fyrsta sem ég gerði var að leita til sérfræðinga til ráðgjafar, enda aldrei verið í álíka stöðu. Ég get nú upplýst að við höfum safnað töluverðu magni af gögnum um málið sem við munum afhenda lögreglu, en bæði ég og stjórn Menningarfélagsins höfum fullan hug á að kæra.“
Segist hann ennfremur hugsa fyrst of síðast um hag allra þeirra sem starfa í Tjarnarbíói og að hann vildi miklu frekar segja frá uppistandi, dansverkum og fleira sem í boði er í Tjarnarbíói en um fjárdráttinn.
„Í þessu máli hef ég fyrst og fremst verið að hugsa um hag þeirra fjölmörgu sem starfa í Tjarnarbíó. Mörg hundruð manns á ári hverju koma í húsið til að skapa. Nánast hver einasta sýning þessa daganna er fyrir fullu húsi.
Ég myndi því vitaskuld frekar vilja segja frá uppistandi, söngleikum, dansverkum og áhrifamiklum einleikjum í fjölmiðlum. En því miður er það þannig að þess í stað verð ég leggja fram kæru og fylgja henni eftir eins vel og ég get.“
Að lokum biður Snæbjörn um góða strauma til listamannanna sem vinna í húsinu.
„Ég mun reyna að upplýsa alla fjölmiðla sem óska eftir því eins vel og ég get án þess að spilla rannsóknarhagsmunum í málinu. Og bið ykkur um að senda góða strauma til þeirra listamanna sem eru í húsinu frá því snemma morguns, langt fram á nótt að vinna að sinni listsköpun.“
Mannlíf spurði Snæbjörn um þá upphæð sem Sindri er grunaður um að hafa dregið að sér. „Rannsókn mun leiða í ljós endanlega upphæð, þetta er a.m.k þrettán milljónir síðan 2021,“ svaraði Snæbjörn í skriflegu svari.
Aðspurður um breytingar á rekstri Tjarnarbíó svaraði Snæbjörn: „Það sem breytist í rekstrinum er fyrst og fremst að heiðarlegra fólk mun fást við bókhaldið sem mun vafalaust með tímanum styrkja reksturinn.“