Foreldrar 60 barna sem eru í eða hafa verið í leikskólanum Maríuborg í Grafarholti krefjast þess að Agnes Veronika Hauksdóttir, leikskólastjóri skólans, segi af sér eða verði rekin en foreldrarnir greina frá þessu í bréfi sem þeir sendu borgarráði.
Í bréfinu tilgreina foreldrarnir um það bil 30 atvik sem foreldrar telji óásættanlega. Sem dæmi nefna foreldrarnir að starfsmaður hafi „látið barn heyra það,“ aðeins þrír starfsmenn hafi verið úti með 35 börn og talað sé niður til barna. Þá hefur Morgunblaðið það eftir foreldrum að börn kvíði að fara í leikskólann og starfsmenn hegði sér óviðeigandi í garð barnanna.
Mannlíf ræddi við fyrrverandi starfsmann Maríuborgar en viðkomandi hefur mjög mikla reynslu að vinna með börnum, bæði á leik- og grunnskólastigi.
Latir starfsmenn
„Það kom mér virkilega á óvart þegar ég frétti að Agnes hafi verið ráðin sem leikskólastjóri,“ sagði starfsmaðurinn fyrrverandi um leikskólastjórann. „Hún er ekkert slæm manneskja en hún er enginn leiðtogi og satt best að segja ekkert sérstaklega dugleg. Að minnsta kosti ekki meðan ég vann með henni.“
Starfsmaðurinn telur að ekki sé hægt að kenna Agnesi um öll vandamál skólans. „Þegar ég vann þarna var Agnes deildarstjóri og Guðný [Hjálmarsdóttir] var skólastjóri. Það var rosalega sérstakur andi á leikskólanum. Ég hef aldrei séð starfsfólk jafn óviljugt til að leika við börn. Fólkið sem vann með mér á deild vildi bara lita og púsla með börnunum og vildi helst ekki standa upp úr stólum og í útiveru stóðu allir starfsmenn upp við húsið og hreyfðu sig ekki frá því nema að heyra barnsgrátur. Þetta afsakar auðvitað ekki Agnesi ef hún hefur staðið sig illa sem leikskólastjóri en þegar maður vinnur í svona lélegu umhverfi lengi þá getur verið erfitt að hrista það af sér.“
Sjálfsfróunarspjall á kaffistofunni
„Það var litið mjög niður á nýja starfsmenn meðan ég vann þarna og ekkert gert til að reyna halda þeim ánægðum,“ sagði starfsmaðurinn. „Ég man að eitt skipti fóru nánast allir starfsmenn í „námsferð“ til útlanda og þá var starfsfólkið sem ekki kom með neytt til að mæta í leikskólann til að taka til og þrífa. Ef ég man rétt voru þetta 4-5 starfsmenn sem byrjuðu of seint til að geta komið með í ferðina. Þetta skapaði eðlilega mikla gremju meðal þeirra starfsmanna enda var starfsfólkið sem fór út að sitja kannski einn tveggja tíma fyrirlestur á dag og fór svo að versla eða á fyllerí.“
Hvaða minning situr mest í þér eftir að hafa unnið á Maríuborg?
„Þegar samstarfsfólk mitt var að tala um sjálfsfróun á kaffistofunni. Ég mætti inn á kaffistofuna og þá sat þar inni 6-7 manna hópur að tala um sjálfsfróun og þá sérstaklega í því samhengi að Channing Tatum væri heitur. Ég tel mig ekki vera tepru en það getur varla talið eðlilegt samtal á kaffistofu.“