Brynjar Níelsson þjáist af minnisleysi og vill að hin nýja ríkisstjórn geri eitthvað í málum minnislausra.
„Minni mitt er afar bágborið og á það bæði við um langtíma- og skammtímaminni. Sérfræðingar eru á einu máli að þetta sé ekki heilabilun því ég hef alltaf verið svona. Líklega einhvers konar athyglisbrestur eða blanda af sljóleika og almennum sauðshætti.“ Þannig hefst Facebook-færsla Brynjars Níelssonar lögmanns og fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Í skondinni færslu sinni segist Brynjar varla muna eftir æskuárum sínum:
„Ég man lítið sem ekkert eftir æskuárunum. Ef mér eru sýndar myndir af mér frá þeim árum kannast ég ekki einu sinni við sjálfan mig. Bekkurinn minn í barnaskóla ákvað endurfund 15 árum efir barnaskólaprófið og þar mætti mikill fjöldi manna sem ég minntist ekki að hafa séð áður. Sama var uppi á teningnum í endurfundum frá gagnfræðaskóla og menntaskóla. Nú er svo komið að hætt er að bjóða mér á þessa endurfundi eða reunion eins og það heitir á góðri íslensku.“
Brynjar segir ennfremur að minnisleysið hafi haft áhrif á hjónabandið:
„Þetta minnisleysi eða sauðsháttur, eins og Soffía kallar þetta, hefur einnig tekið á í hjónabandinu, eins og gefur að skilja. Þegar Soffía er að segja frá ferðum okkar innan- og utanlands í góðra vina hópi kannast ég gjarnan ekkert við að hafa komið á þessa staði og ég gef mig ekkert í þeim deilum fyrr en Soffía dregur fram myndaalbúm máli sínu til stuðnings. Öll fyrirmæli Soffíu, sem eru allmörg, gleymast nema þau sem á að sinna strax. Sama má segja um öll loforð mín. Svo pirrar það Soffíu óendanlega mikið þegar við hittum fólk, sem við þekkjum, en kannski ekki séð í nokkur ár, og ég kannast skyndilega ekkert við það.“
Að lokum biðlar hann til ríkisstjórnarinnar um að gera eitthvað í þessum málaflokki, það þýði ekki að koma öllu minnislausa fólkinu fyrir á Alþingi:
„Þessi færsla er ekki til að fá ykkur til að dást af sjúkdómsinnsæi mínu heldur ákall til nýrrar ríkisstjórnar og kerfisins að gera eitthvað í málum okkar sem svona er komið fyrir. Það dugar ekki að koma okkur öllum fyrir á Alþingi, sem er í raun afleitt meðferðarúrræði.“