Ísfélagið í Vestmannaeyjum hefur undirritað lánasamning við hóp banka að fjárhæð 220 milljónir evara eða um 32 milljörðum króna.
Eyjafréttir segja frá því að lán Ísfélagsins sé til fimm ára og skiptist í tvo hluta. Annars vegar í EUR 150 milljóna afborgunarlán með 25 ára afborgunarferil og hins vegar að jafngildi 70 milljóna Evra fjölmynta ádráttarlán. Verður afborgunarhlutinn nýttur til að endurfjármagna öll núverandi vaxtaberandi lán sem og að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Þá mun ádráttarhlutinn tryggja aðgang að lánsfjármögnun í framtíðinni.
Alls eru lánveitendurnir fimm bankar en þrír þeirra eru alþjóðlegir og tveir íslenskir. Um er að ræða Coöperatieve Rabobank U.A., DNB Bank ASA, Nordea Bank ABP, Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf.
Forstjóri Ísfélags hf segir lánið staðfesta tiltrú bankanna á rekstri félagsins.
„Sambankalánið staðfestir tiltrú lánveitenda á rekstri og fjárhagsstyrk Ísfélagsins. Félagið hefur á undanförnum árum fjárfest umtalsvert í stærri og betur búnum skipum og einnig í nýjum og öflugri búnaði í fiskvinnslum félagsins auk þess sem félagið hefur fjárfest í laxeldi sem er spennandi og ört vaxandi atvinnugrein hér á landi. Nýja lánið gefur félaginu gott tækifæri til áframhaldandi vaxtar og að efla rekstur.“
Samkvæmt Eyjafréttum eru aljþjóðlegu bankarnr, Coöperatieve Rabobank U.A., DNB Bank ASA og Nordea Bank ABP með jafnstóran hlut í fjármögnuninni, en Íslandsbanki hf. og Landsbanki hf. með lægri hlutdeild. Íslandsbanki hf. er umsjónar- og veðgæsluaðili lánsins.