Fasteignakaup sex ára suður-kóreskrar Youtube-stjörnu hafa vakið heimsathygli, en kaupverðið nam hvorki meira né minna en einum milljarða króna.
Hin kornunga Boram er með 30 milljón fylgjendur á Youtube og hefur frægð hennar gefið afar vel í aðra hönd. Tekjur hennar renna í fjölskyldufyrirtækið Boram Family sem stýrt er af foreldrum hennar. CNN greinir frá því að fyrirtækið hafi nýverið fjárfest í fimm hæða húsi í hinu rómaða Gangnam-hverfi í Seúl og var kaupverðið 9,5 milljarðar won, eða sem nemur 975 milljónum króna.
Boram heldur úti tveimur stöðvum á Youtube. Annars vegar stöð þar sem hún fer yfir og gefur leikföngum einkunn og eru fylgjendur hennar þar 13,6 milljónir. Hins vegar heldur hún úti sérstöku videobloggi þar sem hún sýnir alls kyns uppátæki. Vinsælasta klippan hennar hefur fengið yfir 376 milljón áhorf. Myndbandið er sex og hálf mínúta að lengd og sýnir Boram og vini hennar borða núðlur.
En sum myndböndin sem hún hefur birt eru umdeild og hafa grasrótarsamtök lýst því yfir að þau kunni að hafa slæm áhrif á þroska ungra barna. Þannig sýnir eitt myndband Boram stela peninga úr veski föður síns og keyra bíl á götum úti. Samtökin Save the Children hafa meira að segja kært myndbönd hennar til lögreglu og voru foreldrar hennar skikkaðir á námskeið um barnamisnotkun.
Barnamyndbönd á Youtube eru risastór iðnaður og hafa barnastjörnur sprottið upp eins og gorkúlur. Tekjuhæsta barnastjarnan er hinn 7 ára Ryan Kaji, en tekjur hans í fyrra voru metnar á 22 milljónir dollara. Hann er með tæplega 21 milljón fylgjenda.
Tekjurnar koma af auglýsingum sem sýndar eru áður en myndböndin hefjast og frá stórfyrirtækjum sem borga stjörnunum fyrir að fjalla um eða sýna vörur þeirra. Vinsældir þessara Youtube-barna hafa vakið upp áhyggjur af því að barnaníðingar noti myndböndin til að komast í tæri við börn og til að sporna við þessu ákvað Youtube að loka fyrir ummæli við myndbönd sem skarta börnum.
Hér að neðan má horfa á vinsælasta myndband Boram.