Guðný Nielsen skrifaði í dag opið bréf til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra Íslands, þar sem hún spyr hvor hún ætli að beita sér eitthvað gegn ofbeldi Ísraela á Vesturbakka Palestínu.
„Hver eru skilaboð þín í hálfleik, Þorgerður Katrín?
Nú virðist árásum á Gaza vera að linna, en seinni hálfleikur er svo sannarlega hafinn á Vesturbakkanum – með sprengjuárásum á flóttamannabúðir, niðurrifi heimila, markvissri landtöku og börnum skotnum af færi.“ Þannig hefst opið bréf Guðnýjar Nielsen sem hún birti á Facebook í dag. Og hún hélt áfram:
„Fyrir kosningar töluðuð þið Kristrún á þann hátt að Ísland gæti beitt sér fyrir friðsælli lausn. En nú virðist þú ætla að kasta inn handklæðinu – vonsvikin yfir því að “… alþjóðasamfélagið sé ekki nægilega tilbúið til að bregðast við…” sbr. viðtal hjá Boga Ágústssyni í Heimsglugganum.
Þú mismælir þig, kæra Þorgerður. Alþjóðasamfélagið er tilbúið – það sýna þær tugmilljónir sem hafa þrammað götur stórborga um heim allan undanfarna 15 mánuði kallandi á aðgerðir stjórnvalda. Það sem vantar er pólitískur vilji ráðamanna.“
Þá segir Guðný að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga standi með Palestínu og líkir þjóðinni við lið í íþróttum og utanríkisráðherrann fyrirliðinn.
„70% íslensku þjóðarinnar er á bandi Palestínu. Við erum enn í leiknum. Við erum liðið þitt. En, þú ert fyrirliðinn sem virðist ætla að gefast upp.
„Ísland á allt undir því að alþjóðalög séu virt.“ Ef þú virkilega meinar þetta, þá er tækifærið núna til að láta gjörðir fylgja orðum:
Í síðustu viku var Haag-hópurinn stofnaður – bandalag þjóða sem hefur það eina markmið að standa vörð um alþjóðalög í þessum átökum og tryggja að dómum Alþjóðadómstólsins (ICJ) og Alþjóðaglæpadómstólsins (ICC) verði framfylgt.
Þú gætir jafnvel rætt við kollega þína, t.a.m. í Noregi, Írlandi, Spáni og Slóveníu og lagt til að við sláumst öll saman í hópinn.“
Þá telur Guðný upp þau níu ríki sem standa að baki Haag-hópnum og biður Þorgerði Katrínu að hlusta á vilja þjóðarinnar.
„Þau níu ríki sem standa að stofnun Haag-hópsins eru Belís, Bólivía, Kólumbía, Kúba, Hondúras, Malasía, Namibía, Senegal og Suður-Afríka. Vissulega eru þetta ekki okkar hefðbundnu bandalagsþjóðir. En á meðan Bandaríkin fjármagna árásirnar og dönsk stjórnvöld selja parta í F-35 orrustuþoturnar, er erfitt að skilja hvers vegna við stöndum í bandalagi með þessum ríkjum.
Ég bið þig, kæra Þorgerður, að hugsa um hvað þjóðin þín – þitt lið, vill að þú gerir, ekki hvað pólitíkusar bandalagsþjóða vilja að þú gerir.“
Að lokum biður Guðný utanríkisráðherrann að láta þau sem barist hafa fyrir tilverurétti Gaza-búa undanfarna 15 mánuði, vita ef vilji að „Ísland gefist upp“.
„Því við sem höfum staðið vaktina undanfarna 15 mánuði – mótmælt á Austurvelli, fyrir utan ráðuneytin og sendiráðin, skrifað grein eftir grein, deilt hræðilegu efni á samfélagsmiðlum, kallað eftir aðgerðum stjórnvalda, dag eftir dag – höfum enn trú á því að Ísland geti beitt sér. Við erum tilbúin að berjast til leiksloka.
En ef Ísland ætlar að gefast upp – ef þú vilt að liðið þitt gefist upp – láttu okkur bara vita. Þá getum við eins vel gengið af vellinum.“
Þess má geta að Ísland var fyrst vestrænna landa til að viðurkenna ríki Palestínu, þannig að þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem Ísland væri fyrst Vestrænna ríkja til að taka af skarið í stuðningi við Palestínu.
Hér má sjá bréf Guðnýjar: