Þriðjudagur 4. febrúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hundrað börn gefa út Spírur, ungar raddir í umhverfismálum: „Markmiðið að opna umræðurnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fullt var út úr dyrum í hátíðarsal Safnahússins við Hverfisgötu um helgina, þar sem Ungir umhverfissinnar verðlaunuðu rithöfunda framtíðarinnar með útgáfu bókarinnar Spírur, ungar raddir í umhverfismálum. Bókin hefur að geyma 30 sögur af þeim 100 sem bárust í keppnina „Ungir rithöfundar fyrir umhverfið“ sem UU héldu á haustmánuðum. Krakkar, foreldrar, frændfólk og kennarar komu alls staðar að af landinu til þess að fagna ungu rithöfundunum sem notuðu rödd sína í þeirri von að bæta gæði framtíðarinnar. 

Fullt út úr húsi og bækur til sölu.
Ljósmynd: Glo Chitwood

Á haustmánuðum stóð fræðslunefnd Ungra umhverfissinna fyrir ritlistarkeppni þar sem börnum á grunnskólaaldri um allt land var boðið að skrifa sögur, ljóð, myndasögur eða annað skapandi efni sem hafði umhverfismál, náttúruna og/eða loftslagsmál að leiðarljósi. Markmiðið með verkefninu var að koma röddum barna varðandi umhverfis- og náttúruvernd á framfæri og auka þátttöku þeirra í málaflokknum. Eins og okkur öllum er kunnugt steðjar mikil ógn af loftslagsvánni nú sem og í náinni framtíð og er því mikilvægt að hugmyndir, áhyggjur og framtíðarsýn barna fái að heyrast.

Verkefni dómnefndar krefjandi

Yfir 100 ljóð og sögur bárust hvaðanæva af landinu, jafn fjölbreyttar og þær voru margar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá UU. Verkefni dómnefndar reyndist krefjandi þar sem velja þurfti sigurvegara í tveimur aldursflokkum: 

Yngri flokkur / 5-10 ára:

1.sæti : Elínbjört Sara Ástudóttir, Húsaskóla, 5 ára

- Auglýsing -

2-3.sæti : Sóley Káradóttir, Vesturbæjarskóla,  10 ára

2-3.sæti : Katrín Halla Finnsdóttir, Grunnskóla Drangsness, 10 ára

Eldri flokkur / 11-15 ára:

- Auglýsing -

1.sæti : Eyþór Páll Ólafsson, Naustaskóla, 13 ára

2-3.sæti : Kermit Madej, Landakotsskóla, 14 ára

2-3.sæti : Krishika Peddishetti, Landakotsskóla, 11 ára

 

Sigurvegararnir í yngri og eldri flokki. Sú hlutskarpasta í yngri flokki var jafnframt yngsti þátttakandinn. Sá eldri kom alla leið frá Akureyri til að taka á móti verðlaunum.
Ljósmynd: Glo Chitwood

Dómnefnd valdi að lokum 30 verk til þess að setja saman í bókverk sem gefið var út í Safnahúsinu um helgina og verður dreift í bókasöfn grunnskóla landsins. Þá voru allar 100 sögurnar til sýnis í Safnahúsinu um helgina en í fréttatilkynningunni óska Ungir umhverfissinnar höfundum þeirra allra innilega til hamingju.

Yngsti rithöfundurinn les “Ruslið sem talaði við annað rusl”, Ragnhildur Katla aðstoðar.
Ljósmynd: Glo Chitwood

Verkefnið var eitt fjölda stórglæsilegra verkefna sem hlutu styrk úr Loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík, yfirlit verkefna má sjá hér.

Örvar samtalið

„Með verkefninu vildum við örva samtal um umhverfismál meðal barna og veita þeim tækifæri til að hafa áhrif á eigin framtíð og þróa með sér þá vitund að við berum öll ábyrgð á því að vernda náttúruna,“ segir Ragnhildur Katla Jónsdóttir, fræðslustýra UU og hugmyndasmiður verkefnisins og heldur áfram: 

„Verkefnið undirstrikar ennfremur að umhverfisvernd þarf ekki að einblína á sem alvarlegt málefni til þess að tryggja örugga framtíð komandi kynslóða, heldur þarf einnig að tækla sem mikilvægt og spennandi viðfangsefni sem getur kveikt áhuga á sköpun og sprottið fram á listrænan máta.“

Þá segir Ragnhildur Katla að stundum hafi umhverfismálin verið sett upp nokkuð alvarleg og lítið spennandi.

„Umhverfismál eru stundum sett upp svolítið alvarleg og kannski ekki voða spennandi en krakkarnir sem tóku þátt í þessu verkefni hafa sýnt að sú þarf alls ekki að vera raunin. Við þurfum listafólkið og kláru einstaklingana með frjóa ímyndunaraflið til þess að halda lífi í þessu mikilvæga málefni.“

Að lokum segir Ragnhildur Katla að markmiðið með bókinni sé að opna umræðuna hjá yngstu kynslóðinni og sýna þeim að þau hafi rödd.

„Markmiðið með bókinni er að opna umræðurnar meðal okkar yngstu kynslóðar og sýna þessu flotta, unga fólki að við höfum rödd sem við eigum að nota. Orð verða að sögu eins og hugmyndir verða að veruleika. Röddin þín verður að rödd okkar, sem mun á endanum hafa áhrif á framtíðina.“

Um Unga umhverfissinna

Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök ungs fólks á Íslandi sem er annt um náttúru, loftslag og lífríki. Tilgangur félagsins er að vera vettvangur fyrir ungt fólk að nota rödd sína og láta gott af sér leiða í umhverfismálum. Verkefni félagsins eru fjölbreytt og skemmtileg, öll til þess gerð að vekja umræður og stuðla að breytingum til góðs.

Hægt er að fylgkast með Ungum umhverfissinnum á samfélagsmiðlunum instagram og tiktok @ungirumhverfissinnar eða á vefsíðunni www.umhverfissinnar.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -