Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Samfélagið á reiðiskjálfi eftir ásakanir Vítalíu og Arnars – Eitruð ást, uppspuni og mannorðsmorð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samfélagið lék bókstaflega á reiðiskjálfi eftir að Vítalía Lazereva steig fram og bar þungar ásakanir á ástmann sinn, Arnar Grant, og fjóra aðra einstaklinga. Málið náði langt út fyrir það að vera hefðbundið áreitismál þar sem persónulegur harmleikur er að baki. Það teygði sig inn í eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins og næstærstu smásölukeðjuna. Langflestir trúðu framburði ungu, sakleysislegu konunnar sem lýsti því í hlaðvarpsþætti að hún hefði verið nakin í heitum potti í Skorradal ásamt fjórum nöktum og káfandi karlmönnum. Almenn fordæming dundi á mönnunum og atburðarás sem ekki á sér hliðstæðu hófst.

Þórður Már Jóhannesson, Hreggviður Jónsson, Ari Edwald, Arnar Grant og Logi Bergmann

Upphaf Pottamálsins var að nokkrir félagar ákváðu að skreppa í sumarbústað Þórðar Más Jóhannessonar í Skorradal. Ásamt Þórði Má, stjórnarformanni Festar, voru þetta þeir Ari Edwald, forstjóri Íseyjar útflutnings. Hreggviður Jónsson, aðaleigandi Veritas Capital, Þorsteinn M. Jónsson fjárfestir og Arnar Grant heilsuræktarþjálfari sem var þjálfari þremenninganna í World Class um langt árabil.

Framan af sumarbústaðarferðinni var allt með kyrrum kjörum. Þegar leið á kvöldið yfirgaf Þorsteinn samkvæmið. Einhver lagði til að hann tæki Arnar með sér. Hann var þá að sögn orðinn drukkinn. Arnar þvertók fyrir að fara.

Arnar sló um sig og bauð féllögum sínum að horfa á sig og Vítalíu í ástarleik. Þetta kemur fram í vitnisburði bílstjóra Þorsteins M. Jónssonar, sem kom í bústaðinn áður en dró til þeirra örlagaríku tíðinda sem áttu eftir að skekja íslenskt samfélag. Arnar hafði boðið Vítalíu í bústaðinn þrátt fyrir andmæli félaga sinna. Bílstjórinn sagði að Arnar hefði verið sá eini sem var ánægður með að Vítalía væri á leiðinni. „Vitnið kvað Arnar hafa verið óviðeigandi í tali og sagst ætla að sofa hjá kæranda (Vítalíu) og hinir mættu horfa á ef þeir vildu,“ segir í lögregluskýrslu.

Nakin í pottinum

Þegar Vítalía kom í bústaðinn var Ari sofnaður. Arnar lagði til að fólk færi í pottinn en fékk ekki undirtektir. Arnar fór einn í pottinn til að byrja með. Vítalía bað Þórð um að sýna  sér bústaðinn. Eftir það var ákveðið að fleiri færu í pottinn. Í framhaldinu fór Vítalía og vakti Ara og hvatti hann til að koma með þeim í pottinn. Hann lét segjast og fór í sturtu og klæddi sig í sundskýlu. Þegar hann kom í pottinn var Arnar þar fyrir nakinn en Þórður Már í skýlu. Ari lýsti því að Arnar hefði rifið hann úr sundskýlu sinni í pottinum, sem gæti flokkast sem líkamsárás. Þá hefði háttsemi Vítalíu þegar hún kom nakin í pottinn geta fallist undir blygðunarsemisbrot.

Arnar sagði frá því í leynisamtalinu við Loga Bergmann að ekkert hefði gerst í pottinum í líkingu við það sem Vítalía hafði lýst. Hann sagði við Loga að það væri ekkert í þessu og Vítalía myndi aldrei kæra. Nokkrum mánuðum seinna gjörbreytti Arnar framburði sínum í samtali við Vísi. Þá sagðist hann myndu bera vitni í máli Vítalíu, sem þá var sagt vera á borði lögreglu. „Ég er vitni í málinu. Ég sá hvað gerðist og þessar lýsingar hennar, sem hún hefur komið með, þær eru ekki fjarri lagi,“ segir Arnar í samtali við Vísi.

- Auglýsing -

Vítalía lýsti atvikum með allt öðrum hætti í þætti Eddu Falak. Þar lýsti hún Arnari sem ofbeldismanni. Hún sagði að and­rúms­loftið í pottinum hefði breyst á stutt­um tíma. Áður en hún vissi af hafi þeir all­ir byrjað að snerta hana og þukla á henni. Hún seg­ir þá hafa farið yfir mörk­in og yfir mörk allra sem voru sam­an í pott­in­um. Þetta hafi orðið til þess að Arnar hafi farið upp úr pottinum í fússi.

„Það sem ger­ist er að hann fer upp úr pott­in­um fyrst. Hon­um er bara ofboðið og hann fer,“ sagði Vítalía. Í kjöl­farið fór hún upp úr pott­in­um og ræðir við hann. Hún seg­ir hann ekki hafa sagt neitt við vini sína og álasað henni fyr­ir að hafa ekki sagt neitt við þegar þeir fóru að snerta hana.

„Þórður braut á mér“

Lögregluskýrslan sem Arnar gaf ótilkvaddur. Þar sagði hann Vítalíu hafa reynt fjárkúgun.

Í lögregluskýrslu seinna bætti hún í lýsinguna og sagði að þeir hefðu allir sett fingur í rassinn á henni.  Arnar sagði aftur á móti í lögregluskýrslu sem hann gaf ótilkvaddur 15. mars 2022, að ekkert hefði gerst í pottinum meðan hann sá til.Í skýrslunni sem hann gaf lýsti hann Vítalíu sem hinu versta kvendi og taldi að hún væri að eyðileggja líf sitt. Hann sagðist óttast hana og vildi ekki kæra en taldi nauðsynlegt að lögreglan hefði þessar upplýsingar hjá sér. Í vitnisburðinum segir Arnar beinlínis að Vítalía „reyndi fjárkúgun“. Seinna átti eftir að koma annað hljóð í strokkinn.

- Auglýsing -

 

Í viðtali við Mannlíf, hálfu ári eftir viðtalið við Eddu Falak, sagði Vítalía að það hafi verið  Þórður Már sem braut á henni, manna mest. „Þórður braut á mér undir fjórum lagagreinum. Hann læsti mig inni, það er svona stórt hlið við sumarbústaðinn og ég vildi keyra í burtu en Þórður neitaði að opna hliðið en hann á sumarbústaðinn. Hann er svo að dreifa sögusögnum af mér úti í bæ, að við Arnar séum byrjuð saman aftur og fleira sem er bara bull. Við Arnar erum bara vinir, tölum saman annað slagið en hann er líka vitni í máli mínu gegn hinum,“ sagði Vítalía í júní 2022.

Vítalía og Arnar í verslunarferð löngu eftir allt uppámið. Mynd / Aðsend.

Þessi yfirlýsing Vítalíu er merkileg í því ljósi að fréttir höfðu birst af parinu saman. Myndir voru teknar af þeim í verslun og víðar og sendar á fjölmiðla. Flestum var ljóst að þarna bvar ekki aðeins vinátta á ferð. Konan sem sakaði ástamann sinn um að hafa beitt hana ofbeldi var enn og aftur komin í faðm hans.

Seinna í viðtal­inu við Eddu lýs­ti Vítalía því þegar hún fór með Arnari í golf­ferðina á Hótel Hamar í Borgarnesi. Í ferðinni hafi ann­ar karl­maður, Logi Bergmann, brotið á henni.

„Það er labbað inn á okk­ur í þess­ari golf­ferð,“ seg­ir hún og lýsti því svo að Arnar hafi viljað tryggja þögn Loga með því að fá hann aftur inn í herbergið.

„Þá er í raun bara verið að selja mig út, eins og ég sé vænd­is­kona,“ seg­ir hún. „Það er bara boðið þess­um ein­stak­ling sem labb­ar inn á okk­ur að snerta mig óviðeig­andi. Að við séum öll ber sam­an. Hann dreg­ur spil úr ein­hverju kyn­ferðis­leikja­spili, ein­hverja svona mönn­um sem á að gera, og þá á ég bara að fara sjúga typpið á mann­in­um. Og hann að fara niður á mig. Og þetta er gert svo að hann haldi þögn­inni,“ seg­ir Vitaliya.

„Ég horfi fram­an í hann þegar vin­ur hans er að fara niður á mig og ég á að fara niður á hann, ég horfi fram­an í aug­um á hon­um og ég er við það að grenja,“ seg­ir hún. Seinna breytti hún frásögn sinni og sagði að Logi hefði ekkert gert sem hún ekki vildi. Sjálfur sagði Arnar að hún hafi sagt ósatt um það sem sneri að Loga.

„Af hverju ætti ég að kæra hann“

Vítalía seg­ir að hún og Arnar hafi verið í ástar­sam­bandi í um sex­tán mánuði. Á þeim tíma hafi hann beitt hana and­legu of­beldi og reynt að stjórna lífi henn­ar, þrátt fyr­ir að hann væri kvænt­ur ann­arri konu. Hann bað hana að ljúga fyr­ir sig og lýs­ir Vítalía því hvernig hún hafi gert allt sem hann bað hana um því hún væri svo ást­fang­in af hon­um. Þessi frásögn er athyglisverð fyrir þær sakir að Arnar segir blákalt í leynisímtali Loga, skömmu síðar, að hann hafi aldrei verið með henni.

Vítalía seg­ir að þegar fólk spyrji hana hvort hún ætli að leita rétt­ar síns vegna þess sem gerðist í sum­ar­bú­staðnum seg­ist hún ekki ætla að kæra mann­inn sem hún var í ástar­sam­bandi með.

„Af hverju ætti ég að kæra hann. Hann var eini sem mátti vera með mér. Ég vildi vera með hon­um. Ég vildi ekki vera með þér, þér eða þér,“ seg­ir Vítalía í þætti Eddu Falak. Í þessu samhengi blasir við að Vítalía hefði auðveldlega getað sleppt þvi að biðja Þórð að sýna sér bústaðinn eða draga alla með sér í pottinn.

Gísli Marteinn. Mynd: RÚV skjáskot

Fjöldi fólks upphóf Eddu fyrir viðtalið. Þeirra á meðal er Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður sem taldi að Edda væri einn fremsti rannsóknablaðamaður Íslands. Hún var aufúsugestur í þætti hans, Vikunni.

Mennirnir fjórir sem Vítalía bar sökum voru fordæmdir af langflestum. Fjölmiðlafárið var í líkingu við það sem gerðist í Lúkasarmálinu fræga. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, taldi í miðju moldrokinu að málið myndi verða Sjálfstæðisflokknum erfitt vegna þess að fimmmenningarnir væru flestir með tengsl við flokkinn.

„Augljóslega hjálpar þetta ekki flokknum,“ segir Ólafur. sem var þeirrar skoðunar að hneykslismálið muni skaða Sjálfstæðisflokkinn til lengri tíma, líkt og Klaustursmálið gerði hjá Miðflokknum. Óljóst er hvaða speki liggur að baki þessu áliti Ólafs sem taldi að málin tvö ættu það sameiginlegt að meint niðrandi framkoma gagnvart konum hefði vakið reiði almennings.

„Kannski átti Klaustursmálið þátt í fylgishruni Miðflokksins, þó margar aðrar skýringar séu hugsanlegar. Spurningin er hvort málið hefur áhrif á einhverja stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks. Viðhorf þeirra eru ekki endilega þau sömu og viðhorf stuðningsmanna annarra flokka,“ segir hann.

Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, var forspá þegar hún 5. nóvember 2021, skömmu áður en þetta mál sprakk út opinberlega, skrifaði harðorðan leiðara um nornaveiðar. Leiðari hennar ber yfirskriftina Dómstóllinn.

 

„Hægt er að benda á hvern sem er og saka hann um alls konar hluti“

 

Kolbrún segir að  það ætti að vera til marks um heilbrigt hugarfar að hafa þá skoõun að í öllum meginatriðum eigi einstaklingar rétt á öðru tækifari i lifinu brjóti þeir af sér. Þessi hugsunarháttur eigi hins vegar ekki alveg upp á pallborðið í samtíma okkar.
„Metoo-byltingin var þörf en eins og iðulega gerist i byltingum pá hafa eftirköst hennar orðið alvarleg og ofsafengin og kostað mannfórnir,“ skrifar Kolbrún.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Hún segir að ekki sé ætlunin að fjalla um einstök mál heldur einungis verið að nefna það augljósa, hversu stjórnlaus umræðan er orðin þegar hægt er að benda á hvern sem er og saka hann um alls konar hluti og dæma viðkomandi sekan vegna orðróms, med tilheyrandi ærumissi og jafnvel atvinnumissi. Viljum við lifa i slíku sakbendingarþjóðfélagi?“ spyr Kolbrún og kemst að þeirri niðurstöðu að stærstur hluti þjóðarinnar vilji það örugglega ekki og viti mætavel að stjórnlaus refsigleði sé ekki einkenni á siðuồu samfélagi.

Fordæmir RÚV

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður tók skýra afstöðu gegn Vítalíu og fordæmdi Ríkisútvarpið fyrir fréttaflutning af málinu.
„Fréttastofa RÚV hefur á einhver óskiljanlegan hátt fengið þá ímynd að vera traust fréttastofa; segja fréttir sem byggjast á gildum heimildum viðurkenndrar blaða- og fréttamennsku. Svo er alls ekki. Þar skiptir sannleikurinn litlu falli hann ekki að sögunni sem segja á. Þess vegna er ekki haft fyrir því að skoða báðar hliðar mála, ef koma má höggi á þá eða þær manneskjur sem taldar eru standa höllum fæti þjóðfélagslega vegna einhvers konar ásakana,“ skrifaði Sigurður á Facebook.

Sigurður G. Guðjónsson
Honum finnst eitthvað bogið við fréttaflutning RÚV, en í færslu sinni byrjar hann á að ræða starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra Festis, en það mál og mál Vítalíu hafa verið tengd saman. Sigurði finnst það sérstakt.
„Það sem vakti hins vegar athygli við fréttina var hvernig fréttastofunni tókst að þvæla nafni þjóðþekktrar manneskju í fréttina, og í besta falli óljósum og margbreyttum frásögnum hennar af meintum kynferðisbrotum. Við þá umfjöllun voru notaðar myndir af tveimur öðrum manneskjum sem eiga hlut í vinnuveitandanum. Manneskjan hefur borið sakir á þessar tvær manneskjur og fleiri þar á meðal ástmanneskju sína,“ skrifar Sigurður G. og vitnar til brösugra samskipta Arnars og Vítalíu.
„Manneskja kom fyrst fram með ásakanir sínar á samfélagsmiðlum í október 2021, þegar samband hennar og ástmanneskjunnar hafði súrnað. Síðan dró manneskjan allt til baka gagnvart ástmanneskjunni og þau voru sem eitt í atlögum sínum að þremur manneskjum og fjölskyldum þeirra,“ skrifar lögmaðurinn og  segir að það væri verðugt verkefni alvöru fjölmiðils að reyna að að fá einhvern botn í frásagnir manneskjunnar og ástmanneskjunnar en ekki láta hafa sig að fíflum umfram það sem orðið er“.

 

Afleiðingar Vítalíumála

Hvernig sem fólk veltir málunum fyrir sér þá liggur fyrir að ekki stendur steinn yfir steini í frásögnum Vítalíu og Arnars. Arnar fullyrti að Vítalía hefði spunnið upp frásagnir úr Borgarnesi og Skorradal en sneri síðan öllu á hvolf og sagðist standa með þeim sannleika að Vítalía hefði þurft að þola brot í heita pottinum í Skorradal.

Allir sem komu við sögu í Vítalíumálunum tveimur glíma við slæmar afleiðingar. En þær eru misalvarlegar.

Ari Edwald hefur um langt árabil setið við stjórnvölinn i stórfyrirtækjum á borð við MS, fjölmiðlarisanum 365 og Ísey. Hann var neyddur til að víkja úr starfi sínu eftir að ásakanirnar komu upp. Við honum blasti mannorðsmissir og atvinnuleysi. Hann starfar nú sem lögmaður og ráðgjafi.

Logi Bergmann Eiðsson var um áratugaskeið verið einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins. Ásakanir Vítalíu urðu til þess að hann var rekinn úr starfi sínu hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Hann lýsti því sjálfur að önnur og alvarlegri afleiðing var sú að hann missti mannorð sitt. Logi hefur síðan fengið íhlaupaverkefni svo sem hjá Samtökum í sjávarútvegi. Þá stjórnar hann hlaðvarpi sem fjallar um golf.  Hann er nú búsettur í Washington ásamt eiginkonu sinni, Svanhildi Hólm Valsdóttur, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

Hreggviður Jónsson vék sæti úr stjórn Veritas, fyrirtækjasamstæðu sinnar, vegna málsins. Hreggviður er stóreignamaður og málið hefur ekki áhrif á efnahag hans. Mannorð hans stóð aftur á móti laskað eftir.

Þórður Már Jóhannesson vék sem stjórnarformaður í Festi eftir þrýsting stórra hluthafa, einkum lífeyrissjóða. Málið hefur ekki áhrif á efnahag hans en mannorðið var laskað eftir ásakanir Vítalíu.

Arnar Grant var rekinn frá Wold Class þar sem hann var einkaþjálfari. Hann missti samning vegna orkudrykkjarins Hleðslu. Hjónaband Arnars gaf sig vegna ástarsambandsins við Vítalíu. Hann starfar sem einkaþjálfari í dag og býr í Vogabyggð. Hermt er að Vítalía búi með honum þar en það er óstaðfest. Vítalía forðaðist að svara þeirri spurningu þegar Mannlíf spurði hana.

Vítalía Lazereva missti vinnu sína í lyfjabúð eftir að upp kom að hún hefði flett upp í sjúkraskrám í leyfisleysi. Málið fór ekki fyrir dóm. Hún hefur undanfarin misseri búið með Arnari Grant. Ekki liggur fyrir hvort sú sambúð sé að staðaldri.

Margir undrast að fjárkúgunarmálið hafi ekki farið fyrir dóm og mennirnir hreinsaðir af ásökunum sem fæstar virðast standast skoðun. Sú ákvörðun lögreglu að vísa Pottamálinu frá er skýr vísbending um að misræmi í frásögn Vítalíu og að dómsmál myndi aldrei leiða til sakfellis. Eftir allt fárið stendur eftir að málatilbúnaðurinn stenst enga skoðun. Þá er illskiljanlegt af hverju horfið var frá lögsókn á hendur parinu vegna tilrauna þess til að kreista út allt að 300 milljónum króna frá mönnunum þremur í Skorradal. Eitruð ást, uppspuni og svik hafa kostað mannorðsmorð.

Framganga fjölmiðla í málinu er svo umhugsunarefni. Þegar á daginn kemur að það er maðkur í mysunni og uppspuni er rót málsins, þá líta flestir undan og láta ógert að leiðrétta ófögnuðinn. Þetta er gömul saga og ný.

Þetta er þriðja og lokagreinin í úttekt á atburðum í Borgarnesi og í Skorradal. Fyrri greinar má sjá hér og hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -