Tæplega fjórar milljónir króna söfnuðust í málfrelsissjóð á einum mánuði.
Söfnun í málfrelsissjóð var sett á laggirnar 21. júní, skömmu eftir að þær Oddný Arnarsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir voru dæmdar í Héraðsdómi Reykjavíkur til greiðslu miskabóta vegna ummæla sem þær létu falla um tvo menn vegna Hlíðamálsins svokallaða.
Söfnuninni á Karolina Fund lauk í gær og söfnuðust um 3.767.000 krónur.
Sjóðnum er ætlað að standa straum af málsvarnarkostnaði og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að vera dæmdar til að greiða ef þær tjá sig um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi.
„Konur sem taka þátt í opinberri umræðu um kynbundið ofbeldi leggja mannorð sitt að veði. Öllum brögðum er beitt til að draga úr trúverðugleika þeirra, gera lítið úr frásögnum þeirra og upplifunum,“ segir á söfnunarvefnum.
Þar segir einnig: „Stofnun málfrelsissjóðs er ætlað að draga úr ótta kvenna við að tjá sig og tryggja að fjárhagsáhyggjur bætist ekki við það andlega og tilfinningalega álag sem fylgir því að tala um kynbundið ofbeldi. Markmiðið er að sjóðurinn muni geta staðið undir málsvarnarlaunum og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að verða dæmdar til að greiða vegna umræðna um kynbundið ofbeldi og nauðgunarmenningu.“
Í Málfrelsissjóð söfnuðust 3.767.000 isk á þessum eina mánuði. Við erum í skýjunum með árangurinn og þökkum öllum sem…
Posted by Málfrelsissjóður on Mánudagur, 22. júlí 2019