Hannes Hólmsteinn Gissurarson minnist vinar síns, Björgólfs Guðmundssonar sem lést á sunnudaginn.
Stjórnmálaprófessorinn Emeritus, Hannes Hólmsteinn Gissurarson minnist Björgólfs Guðmundssonar, viðskiptamanns, sem lést 85 ára að aldri síðastliðinn sunnudag. Segir Hannes í Facebook-færslu að Björgólfur hafi verið „hugmyndaríkur, viðkunnanlegur og góðviljaður maður“ og að það hafi verið farið illa með hann í Hafskipsmálinu svokallaða á sínum tíma. Segist Hannes hafa verið nærri því eini maðurinn sem hafi opinberlega varið Björgólf þegar Hafskipsmálið kom upp. Að lokum segir prófessorinn umdeildi að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði frekar átt að reyna að bjarga Landsbankanum en Kaupþingi, haustið 2008.
Hér má lesa færsluna í heild sinni:
„Góður vinur minn, Björgólfur Guðmundsson, er allur, 85 ára að aldri. Hér er hann í útgáfuhófi heima hjá mér í desember 2004, þegar ég gaf út annað bindið af ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, Kiljan. Hann var hugmyndaríkur, viðkunnanlegur og góðviljaður maður og áhugasamur um stjórnmál og menningu, og fóru skoðanir okkar í þeim efnum mjög saman. Studdi hann mig vel og drengilega í mörgum verkefnum. Farið var illa með Björgólf í Hafskipsmálinu, og var ég þá nær eini maðurinn, sem reyndi opinberlega að gæta sanngirni í hans garð og hlaut að launum forsíðuárás Jóns Baldvins Hannibalssonar í Alþýðublaðinu. Seinna fékk Björgólfur að reyna, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Viðskiptasaga hans var ævintýraleg. En líklega hefði frekar átt að reyna að bjarga Landsbankanum haustið 2008 en Kaupþingi, og banki hans í Lundúnum, Heritable, var alls ekki gjaldþrota, eins og kom fram í skiptameðferð hans.“