Verkfall hefst í Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga 21. febrúar, hafi samningar ekki náðst en þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.
„Félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara (FF) og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum (FS) í Borgarholtsskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga greiddu atkvæði um boðun verkfalla.
Verkfallsaðgerðir voru, í öllum fimm skólunum, samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta. Kjörsókn var í öllum tilfellum góð eða á bilinu 88% til 100%. Atkvæðagreiðsla stóð dagana 3.-5. febrúar 2025.
Náist ekki samkomulag um kjarasamninga hefjast verkföll í þessum skólum 21. febrúar næstkomandi. Verkföllin verða ótímabundin.
Þá er vert að geta þess að kjaraviðræðum Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum og Verzlunarskóla Íslands hefur verið vísað til ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningunni.